Einn helsti fíkniefnabarón Mexíkó handtekinn

Hector Beltran Leyva var handtekinn í gær.
Hector Beltran Leyva var handtekinn í gær. AFP

Mexíkóskir hermenn handtóku einn helsta fíkniefnabarón landsins, Hector Beltran Leyva, á veitingastað í ferðamannabæ í gær.

Leyva, sem er þekktur undir nafninu „El H“, sat að snæðingi ásamt félaga sínum á sjávarréttastað í bænum San Miguel de Allende. Engu skoti var hleypt af við handtökuna en bærinn er afar vinsæll meðal bandarískra ferðamanna og eftirlaunaþega.

Tomas Zeron, sem stýrir rannsókn á málum Beltran Leyva á skrifstofu ríkissaksóknara segir í samtali við AFP fréttastofuna að Beltran Leyva hafi reynt að fela raunverulegt starf sitt með því að reka fasteignaviðskipti og sölu á listaverkum.

Beltran Leyva, var með byssu á sér þegar hann var handtekinn en rannsókn á honum hefur staðið yfir í ellefu mánuði.

Undanfarið hefur heldur fækkað á lista yfir eftirsóttustu glæpamenn Mexíkó en foringi Sinaloa glæpahringsins, Joaquin „El Chapo“ Guzman var handtekinn í febrúar og leiðtogi Zetas, Miguel Angel Trevino, var handtekinn í fyrra.

Beltran Leyva, 49 ára, tók við forystu í glæpagengi fjölskyldunnar þegar bróðir hans, Arturo lést í átökum við hermenn árið 2009 í bænum Cuernavaca. Tveir bræður hans, Alfredo og Carlos, eru í fangelsi.

Zeron segir að Beltran Leyva sé einn helsti eiturlyfjasmyglari Mexíkó en hann hefur sérhæft sig í flutningi á kókaíni frá Suður- og Mið-Ameríku til Bandaríkjanna og Evrópu..

Yfirvöld í Mexíkó höfðu heitið 2,2 milljónum Bandaríkjadala, 267 milljónum króna, þeim sem gæti veitt upplýsingar um hvar hann væri að finna. Eins höfðu bandarísk yfirvöld sett 5 milljónir Bandaríkjadala til höfuðs honum. Hann á yfir höfði sér ákæru í Washington og New York.

Hector Beltran Leyva
Hector Beltran Leyva AFP
Hector Beltran Leyva
Hector Beltran Leyva AFP
Hector Beltran Leyva
Hector Beltran Leyva AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert