Fimm létust í þyrluslysi

Slökkviliðsmaður á slysstað í dag.
Slökkviliðsmaður á slysstað í dag. AFP

Fimm Svisslendingar létust og tveir særðust í þyrluslysi í Frakklandi í dag. Að sögn vitna hrapaði þyrlan „eins og steinn“ niður á jörðina. Lenti hún aðeins nokkrum metrum frá íbúðarhúsi.

Þyrlan var af gerðinni EC130 og hrapaði í garði heimilis í úthverfi nálægt borginni Montbeliard, um 13 kílómetrum frá landamærum Sviss og Frakklands.  

Fólkið var starfsmenn svissnesks fyrirtækis og samkvæmt heimildum AFP voru þau á leið til Frakklands til þess að skoða Peugeot bílaverksmiðju.

Ekki er vitað hvað olli hrapinu. Björgunaraðgerðir hófust fljótlega en rúmlega 70 slökkviliðs- og lögreglumenn störfuðu við björgunaraðgerðir á svæðinu.

Fólkið sem var um borð hefur ekki verið nafngreint. Þau voru á aldrinum 45 til 63 ára. Ein kona var í hópnum.

Íbúi hússins var að borða morgunmat þegar þyrlan hrapaði í garðinum. „Allt í einu heyrðust mikil óhljóð og blístur, eins og það hafi orðið gasleki,“ sagði Loic Schmidt í samtali við AFP. „Þyrlan hrapaði þar sem ég geymi eldivið. Ég hringdi í slökkviliðið og fór út að athuga hvað hafði gerst. Að minnst kosti tveir kölluðu á hjálp en þeir voru grafnir undir þyrlunni. Eina sem ég gat gert var að segja þeim að hjálp væri á leiðinni.“

Íbúar hússins hafa nú þurft að yfirgefa það en mikið þyrlueldsneyti lak á lóðina og getur það skapað hættu.

Björgunaraðilar segja að veður hafi verið gott þegar slysið átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert