Þetta er ekki okkar, þetta er erlent skip

Myndin sem birt var á blaðamannafundinum í dag. Hún sýnir …
Myndin sem birt var á blaðamannafundinum í dag. Hún sýnir sjófar í fjarlægð, en það hvarf skömmu eftir að myndin var tekin. AFP

Tvö hundruð sænskir hermenn, nokkur skip, tundurduflaslæðarar og þyrlur hafa leitað í sjónum í sænska skerjagarðinum í þrjá daga. Leitað er á svæði sem er um 50 kílómetrum austur af Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar.

 „Þetta er ekki okkar, þetta er erlent skip,“ sagði flotaforinginn Anders Grenstad á blaðamannafundi í dag.

Þar var í fyrsta skipti birt mynd sem sýnir sjófar í sænska skerjagarðinum en myndin er meðal nokkurra vísbendinga sem herinn hefur undir höndum vegna málsins og segir trúverðugar.

„Hann sá að það var eitthvað á sjónum og eftir að hann hafði tekið myndina hafði það horfið á ný,“ sagði Anders um myndina. Sagði hann að ekki væri hægt að segja til um þjóðerni skipsins á myndinni. Hún væri tekin úr mikilli fjarlægð og því er ekki hægt að virða skipið vel fyrir sér.

„Við erum ekki á höttunum eftir kafbátum, að nota vopn í baráttu við óvin. Þetta snýst um að safna upplýsingum til að staðfesta að um erlenda neðansjávarstarfsemi sé að ræða,“ sagði Anders.

Anders sagði ekki rétt að um væri að ræða rússneskan kafbát í vanda, líkt og Svenska Dagbladet hélt fram fyrr í dag. Sagði hann að það væri ekkert sem benti til þess, ekkert neyðarkall hefði borist frá þessu svæði síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert