Á von á sér í apríl

Hertoginn og hertogaynjan af Cambrigde.
Hertoginn og hertogaynjan af Cambrigde. AFP

Hertoginn og hertogaynjan af Cambridge hafa nú tilkynnt hvenær von er á næsta barni þeirra. Í yfirlýsingu frá Kensingtonhöll kemur fram að Katrín sé enn undir eftirliti vegna alvarlegrar morgunógleði sem hefur hrjáð hana síðustu vikur. Þetta kemur fram í frétt Sky News.

Samkvæmt yfirlýsingunni er Katrín á batavegi og á von á sér í apríl á næsta ári. 

Katrín þurfti að aflýsa nokkrum viðburðum vegna veikinda sinna, m.a. neyddist hún til þess að hætta við að fara í opinbera heimsókn til Möltu. Átti það að vera fyrsta opinbera heimsóknin sem Katrín fer í án Vilhjálms.

Nú er þó áætlað að Katrín muni taka fullan þátt í dagskrá þegar að forseti Singapúr kemur í opinbera heimsókn til Bretlands á morgun. 

Yfirlýsing hallarinnar gefur til kynna að Katrín sé komin um 12-16 vikur á leið. Þar af leiðandi gæti barnið fæðst í kringum brúðkaupsafmæli hjónanna en þau giftu sig 29. apríl 2011. 

Fyrsta barn hjónanna, Georg prins, fæddist í júlí á síðasta ári. Annað barn hjón­anna verður því það fjórða í röðinni að krún­unni og fær­ist Harry, bróðir Vilhjálms, því niður í fimmta sæti.

Hertogaynjan ásamt syni sínum.
Hertogaynjan ásamt syni sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert