Ef börn fæðast á Ítalíu fái þau ríkisborgararétt

S
S AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, hefur heitið því að gera börnum, sem útlendingar eignast á Ítalíu, auðveldara með að fá ríkisborgararétt. Flestir þeirra flóttamanna sem koma til Evrópu koma að landi á Ítalíu, oft eftir afar hættulegt ferðalag á illa búnum bátum frá Afríku.

Renzi sagði seint í gærkvöldi í viðtali við Canal 5 sjónvarpsstöðina að frumvarpið verði lagt fram til kynningar fyrir lok árs. Á laugardag tóku fleiri þúsundir þátt í göngu í Mílanó þar sem innflytjendum var mótmælt.

Með frumvarpinu sem Renzi ætlar að leggja fram verður börnum sem fædd eru af útlendingum á Ítalíu veittur ítalskur ríkisborgararéttur ef þau stunda nám.

Yfir fjórar milljónir útlendinga, þar af er ríflega helmingur frá öðrum ríkjum Evrópu, eru búsettar á Ítalíu með löglegum hætti. Fæðingartíðni er afar lág á Ítalíu en einungis 1,6 barn fæðist á hvert par sem er talsvert minna en þau 2,1% sem nauðsynleg eru til þess að koma í veg fyrir fækkun. Í þeirri von að fleiri börn fæðist hefur Renzi heitið nýbökuðum foreldrum að fá 80 evrur, rúmar 12 þúsund krónur, á mánuði í þrjú ár eftir fæðingu barns. Tilboðið gildir fyrir þá sem eru með tekjur undir 90 þúsund evrur, 13, 8 milljónir króna, á ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert