Innbrotsþjófur festist í strompi

Jón Sigurðsson

Kona frá Kaliforníu í Bandaríkjunum sem hugðist brjótast inn í hús fyrrverandi kærasta síns á aðfaranótt sunnudags lenti í ansi vandræðalegri lífsreynslu þegar hún festist í strompi hússins. 

Konan, sem heitir Genoveva Nunez-Figueroa og er 30 ára gömul ætlaði að brjótast inn til mannsins í gegnum strompinn. Ekki fór betur en svo að hún festist í strompinum, og sat þar föst í nokkrar klukkustundir. Fréttastofa CBS greinir frá þessu.

Nágrannar mannsins heyrðu í öskrum konunnar og kölluðu á lögreglu. Senda þurfti slökkvilið á svæðið þegar lögreglumenn náðu konunni ekki út, og þurftu slökkviliðsmennirnir að taka múrsteina úr strompinum og nota sápu til að koma konunni út.

Húseigandinn sagði lögreglu að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem konan reyndi að brjótast inn í hús hans. „Þetta er reyndar önnur tilraun hennar til að brjótast inn í hús mitt frá þakinu,“ sagði hann. 

Maðurinn sagðist hafa kynnst Nunez-Figueroa í gegnum netið. „Sem sannar það að maður verður að vera varkár þegar maður kynnist fólki á netinu.“

Konan var handtekin og hefur verið ákærð fyrir innbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert