Risavaxið glerskip í París

Nýtt ofurnútímalegt listasafn var formlega sett á laggirnar í París í gær að viðstöddum forseta Frakklands, François Hollande. Um er að ræða safn í eigu stórfyrirtækisins Louis Vuitton og er það staðsett í útjaðri Boulogne skógar. 

Hollande hrósaði hönnun arkitektsins, Frank Gehry, fyrir hönnun safnsins þar sem gler er í öndvegi og minnir safnið helst á risavaxið glerskip. Gríðarlega mikið er um að vera í listalífi Parísarborgar en myndlistarmessan FIAC hófst þar í gær. FIAC stendur yfir í viku en listamessan er ein sú stærsta og virtasta í heiminum.

Hollande gerði verk bandaríska listamannsins, Paul McCarthy, The Tree, að umtalsefni í Louis Vuitton safninu í gær en honum við hlið stóð einmitt McCarthy. Skemmdarvargar eyðilögðu verkið um helgina en það var sett upp í tilefni FIAC.

Að sögn Hollande hefur Frakkland alltaf tekið stöðu með listamönnum og hann geri það sjálfur í þessu tilviki þegar verk listamannsins var eyðilagt.

„París er og verður alltaf gömul frú. En hún er stórkostleg gömul kona, geislandi, ósvífin og jafnvel djörf, sem sagan hefur alltaf náð að tengja við listina,“ segir í leiðara Le Parisien í gær.

„Og þessi fagra kona er ekki hrædd við að valda hneyklsun..., hún veit hvernig á að tæla,“ segir í leiðaranum og er það vísað til þeirrar reiði sem kom upp í huga sumra vegna verks McCarthys sem einhverjir veltu fyrir sér að minnti of mikið á kynlífsleikfang.

Það hefur tekið meira en áratug að byggja nýja Louis Vuitton safnið en það er fjármagnað af Bernard Arnault, sem stýrir viðskiptaveldi Louis Vuitton.

Gehry er meðal annars þekktur fyrir hönnun Walt Disney tónlistarhússins í miðborg Los Angeles og Guggenheim safnsins í Bilbao á Spáni.

Umfjöllun Guardian um safnið

Le Parisien

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert