Strútsungar hugguðu fílskálf

Fílskálfurinn Wass á leiðinni í flugvélinni.
Fílskálfurinn Wass á leiðinni í flugvélinni. Skjáskot af Youtube

Í hvert sinn sem tekst að bjarga fílskálfi frá dauða eru það góðar fréttir. Þegar tveir strútsungar hugga litla fílinn er það einstaklega góð frétt.

Í síðustu viku fóru starfsmenn David Sheldrick-dýraverndunarsamtakanna í Kenía í björgunarleiðangur eftir að hafa frétt af ungum fílskálfi í neyð. Sá hafði fallið ofan í brunn og varð viðskila við hjörð sína.

Því þurftu dýraverndunarsamtökin að taka hann að sér. Kálfurinn er kallaður Wass, eftir svæðinu sem hann hélt til á. 

Er björgunarlið kom á vettvang urðu á vegi þess tvö önnur dýr sem voru munaðarlaus: Kornungir strútsungar. 

Flytja þurfti öll dýrin í flugvél í dýraathvarf og svo virtist sem strútsungarnir væru að hugga litla fílinn á leiðinni.

Wass verður að öllum líkindum sleppt síðar, en hann þarf nú að safna kröftum. Hann heldur nú til í dýraathvarfi með öðrum fílum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert