20 þúsund barnaníðingar frá 71 landi

AFP

Ástrali var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir barnaníð á netinu en hann er sá fyrsti sem er dæmdur í aðgerð sem miðaði að því að koma upp um barnaníðinga á netinu. Til þess var búin til tíu ára gömul filippseysk sýndarstúlka sem kallaðist Sweetie.

Það voru hollensku samtökin Terre des Hommes sem greindu frá því í nóvember í fyrra að þau hefðu búið til sýndarstúlku á netinu sem barnaníðingar komust í samband við á spjallrásum.

Á tíu vikum höfðu yfir 20 þúsund manns frá 71 landi haft samband við stúlkuna og óskað eftir því að hún viðhefði kynferðislega tilburði fyrir framan vefmyndavél. Búið er að hafa uppi á rúmlega eitt þúsund þeirra.

Ástralinn Scott Robert Hansen, 38 ára, var eins og áður sagði dæmdur í tveggja ára fangelsi en hann hefur setið í fangelsi í 260 daga og er dómurinn skilorðsbundinn héðan í frá. 

Terre des Hommes-samtökin hafa greint frá því að þau hafi ekki reynt að nálgast neinn barnaníðing á netinu heldur beðið þess að fólk hefði samband við Sweetie í leit að barnaníði. Um leið og einhver bauð Sweetie greiðslu fyrir kynlíf var þegar slökkt á samtalinu.

Ástralska alríkislögreglan handtók Hansen eftir að hafa séð hann nakinn og að fróa sér fyrir framan vefmyndavél á sama tíma og hann talaði við sýndarstúlkuna.

Yfirmaður samtakanna, Hans Guyt, sagði að það hefði eiginlega verið skelfilegt að upplifa það og sjá hvað fólk bað þessa tíu ára gömlu stúlku um að gera fyrir framan myndavélina. Með aðgerðinni vildu samtökin beina kastljósinu að nýrri tegund kynlífsferðaþjónustu á Filippseyjum en talið er að tugir þúsunda barna starfi við kynlífsþjónustu gegnum vefmyndavélar þar sem barnaníðingar fá útrás fyrir kenndir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert