Hafnar líklega fjárlögum Frakka

AFP

Talið er líklegt að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fari fram á það við frönsk og ítölsk stjórnvöld að þau breyti fjárlagafrumvörpum sínum þar sem þau gangi gegn reglum sambandsins. Það sama kann að verða raunin í tilfelli fleiri ríkja ESB sem nota evru sem gjaldmiðil sinn samkvæmt frétt AFP. Þar á meðal Austurríki, Slóvenía og Malta.

Fram kemur í fréttinni að ríki ESB sem tilheyri evrusvæðinu hafi sent framkvæmdastjórninni fjárlagafrumvörp sín vegna næsta árs í síðustu viku í samræmi við víðrækar nýjar valdheimildir sem sambandið fékk í kjölfar efnahagserfiðleikanna á svæðinu. Framkvæmdastjórnin hefur viku til þess að meta hvort fjárlagafrumvörp ríkjanna séu í samræmi við reglur ESB eða ekki og getur sambandið í kjölfarið krafist breytinga á þeim. 

Ennfremur segir að miklar áhyggjur séu af því að slík krafa frá ESB gæti ýtt frekar undir uppgang þjóðernisöfgamanna bæði í Frakklandi og á Ítalíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert