Rússnesk njósnavél rauf lofthelgi NATO

Herþotur af gerðinni F-16 flugu til móts við rússnesku vélina …
Herþotur af gerðinni F-16 flugu til móts við rússnesku vélina og sáu til þess að hún yfirgæfi lofthelgi NATO. AFP

Herþotur Atlantshafsbandalagsins (NATO) stöðvuðu för rússneskrar njósnaflugvélar sem var á flugi yfir Eystrasaltinu, en vélin rauf lofthelgi Eistlands.

Talsmenn NATO segja að vélin hafi verið af gerðinni Ilyushin IL-20. Hún hóf sig til flugs frá Kalíningrad í Rússlandi, sem liggur við Eystrasaltið.. Danskar herþotur af gerðinni F-16 voru fyrstar á vettvang er vélin nálgaðist Danmörku. 

Vélin flaug svo til norður í átt að Svíþjóð  en Svíar sendu einnig herþotur í loftið til að stöðva för rússnesku vélarinnar.

Um fjórum klukkustundum síðar flaug vélin í átt að Eistlandi, sem er aðildarríki bandalagsins, og fór hún inn fyrir eistneska lofthelgi í um eina mínútu. Vélin fór um 600 metra inn fyrir lofthelgi NATO. 

Portúgalskar herþotur urðu einnig varar við rússnesku flugvélina og fylgdi henni út úr lofthelgi NATO. 

Mikil spenna er í samskiptum Vesturveldanna og Rússa vegna stríðsátakanna í Úkraínu, en hún hefur ekki verið meiri frá lokum Kalda stríðsins.

NATO hefur hert lofteftirlit við Eystrasaltið en bandalagið segist að umferð rússneskra herflugvéla hafi aukist mjög mikið við Pólland og Eystrasaltið frá því í mars þegar Rússar innlimuðu Krím, sem var áður hluti Úkraínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert