Telur Frakkland of kvenlægt

Éric Zemmour.
Éric Zemmour. AFP

Ný bók eftir franska rithöfundinn Éric Zemmour hefur selst gríðarlega vel frá því hún kom út þann 1. október en í bókinni gagnrýnir hann íslamsvæðingu í Frakklandi og segir að landið sé orðið of kvenlægt.

Rithöfundurinn og blaðamaðurinn er ekki óvanur því að vekja deilur en hann þykir óvæginn öfgamaður í skrifum sínum. Eitt sinn lýsti Jean Marie Le Pen, stofnandi þjóðernisflokksins Front National að Zemmour væri einn þriggja franskra blaðamanna sem kæmi almennilega fram. Miðað við sölu á bókinni virðist sem Zemmour hafi hitt naglann á höfuðið - að franskur almenningur sé vonsvikinn og vegvilltur.

Bókin Le Suicide Français - Ces quarante années qui ont défait la France hefur selst í um 15 þúsund eintökum á dag og er gert ráð fyrir að um hálf milljón eintaka muni seljast sem er mikið á franskan mælikvarða.

Á sama tíma og Frakkar glíma við gríðarlegt atvinnuleysi, óvinsælasta forseta sögunnar og sífellt vaxandi óánægju og reiði meðal almennings kemur Zemmour með kenningar um hvað valdi þessu slæma ástandi í landinu. Samkvæmt frétt The Local er það eitthvað sem fólk hefur áhuga á að vita. 

Samkvæmt Zemmour var það stúdentauppreisnin í maí 1968 sem markar upphaf mistaka og getuleysis sem fer sífellt versnandi með fjölgun innflytjenda. 

Þrátt fyrir að vera gyðingur og sonur innflytjenda frá Alsír segir Zemmour að ein stærstu mistök Frakka síðustu fjörtíu árin sé setning innflytjendalaga árið 1974 sem heimila innflytjendur að fá nánustu aðstandendur til sín til Frakklands.

Í bókinni lýsir hann „halalization“ Frakklands þar sem íslömsk lýðveldi hafa myndast í ákveðnum hlutum Frakklands.

Hann segir karlmennskuna á undanhaldi í Frakklandi og því fylgi neikvæð áhrif. Franskt þjóðfélag sé orðið alltof kvenlægt.

Að sögn Zemmour ríkir ákveðin örvænting meðal ungra hvíta karla í Frakklandi sem þurfa að keppa við arabíska og svarta keppinauta. „Karlmennska er metin af Afríkubúum og arabískum múslíma fjölskyldum. Hvítir karlar hafa verið táknrænt vanaðir,“ segir rithöfundurinn.

Bruno Cautres, sérfræðingur í stjórnmálafræði við Sciences Po háskólann segir í samtali við The Local að almenningur í Frakklandi leiti eftir svörum og skýrum skilaboðum.

Hann segir stöðu Frakklands slaka og í raun glími landið við kreppu. Zemmour hikar ekki við að segja sína skoðun og lætur það ekki trufla sig að hún komi illa við einhverja. „Jafnvel þeir sem telja Zemmour óþolandi rasista samþykkja að hann kemur hugmyndum sínum skýrt á framfæri og fer ekki leynt með skoðanir sínar,“ segir Cautrés.

Það komi fólki því ekki óvart það sem kemur fram í bókinni líkt og það kom fólki á óvart sem greiddi óvini fjármálanna atkvæði sitt og enda svo uppi með Emmanuel Macron, segir Cautrés og vísar þar til kosningabaráttu François Hollandes fyrir forsetakosningarnar og að hann hafi síðan fengið fyrrverandi bankamann til þess að bjarga efnahagsmálum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert