Leyniþjónustuhundar réðust á boðflennu

AFP

Karlmaður sem stökk yfir girðingu við Hvíta húsið í Washington fékk heldur óblíðar móttökur á lóð forsetabústaðarins, en hundar réðust á hann og í framhaldinu var maðurinn handtekinn. Þetta er einn eitt atvikið sem kemur upp við Hvíta húsið þar sem óboðnir gestir ná að komast inn á lóðina.

Maðurinn, hinn 23 ára gamli Dominic Adesanya, var óvopnaður þegar hann var stöðvaður á lóðinni skammt frá húsinu. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Á myndbandsupptöku, sem sýnir atvikið, sést Adesanya sparka og slá hunda bandarísku leyniþjónustunnar sem höfðu verið sendir á eftir honum. 

Fyrir um mánuði kleif maður vopnaður hnífi yfir girðingu við lóð hússins og náði hann að komast inn í bygginguna. Það atvik, og önnur sem hafa komið upp, leiddi til þess að Julia Pierseon, yfirmaður leyniþjónustunnar, var rekin. 

Talsmaður leyniþjónustunnar segir að Adesanya hafi verið kærður fyrir athæfið, m.a. fyrir að veita viðnám við handtöku og fyrir að fara inn á svæðið í heimildarleysi. 

Tveir hundar voru fluttir á dýraspítala þar sem gert var að sárum þeirra. 

Þá hefur komið í ljós, að leyniþjónustan hafi sent starfsmenn, sem voru á vakt í Hvíta húsinu, að heimili starfsmanns leyniþjónustunnar sem hafði lent upp á kant við nágranna sinn. Yfirmaður innra eftirlits hjá bandaríska heimavarnaráðuneytinu segir að þarna hefðu menn sýnt mikinn dómgreindarskort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert