Pólverjar banna ruslfæði í skólum

Kartöfluflögur verða bannaðar í pólskum skólum fljótlega.
Kartöfluflögur verða bannaðar í pólskum skólum fljótlega. mbl.is/Jim Smart

Pólsk stjórnvöld hafa bannað ruslfæði í skólum frá og með næstu áramótum en þetta er gert vegna aukinnar offitu meðal pólskra ungmenna. Um 17% pólskra barna í Póllandi þjást af offitu samkvæmt rannsókn sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) birti í fyrra.

Frumvarpið fór nánast mótatkvæðalaust í gegnum pólska þingið en af 460 þingmönnum í neðri deildinni greiddu 426 atkvæði með frumvarpinu.

Heilbrigðisráðuneytið mun nú gefa út lista yfir það fæði sem má neyta í skólum landsins. Meðal þess sem verður sett á bannlista eru kartöfluflögur, gosdrykkir, hamborgarar, sælgæti og fleiri fitandi vörur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert