Axarmaðurinn var einn á ferð

Lögreglan í New York segir að karlmaður sem réðist á lögregluþjón með exi í gær hafi verið einn á ferð. Lögreglustjórinn Bill Bratton segir að þetta hafi verið hryðjuverk og árásarmaðurinn, sem var skotinn til bana, hafi verið einfari sem hefði nýverið tekið upp íslamstrú.

„Þetta var hryðjuverk,“ sagði Bratton á blaðamannafundi í New York í dag. Hann bætti við að hann ætti ekkert erfitt með að kalla verknaðinn það. 

Lögreglumaðurinn sem ráðist var á heitir Kenneth Healy, en hann er 25 ára gamall nýliði. Hann liggur lífshættulega særður á sjúkrahúsi en líðan hans er sögð stöðug. Hann hlaut áverka á baki þegar maðurinn réðist á hann með exi um hábjartan dag við verslunargötu í Queens. Fjölmargir voru á svæðinu þegar árásin átti sér stað.

Skutu saklausan vegfaranda

Bratton segir að árásin hafi aðeins staðið yfir í sjö sekúndur. Árásarmaðurinn, Zale Thompson, sem var 32 ára, náði að höggva til tveggja lögreglumanna áður en tveir félagar þeirra skutu Thompson til bana. 

Lögreglumennirnir hæfðu einnig 29 ára gamla konu fyrir slysni. Hún liggur nú lífshættulega særð á sjúkrahúsi en líðan hennar er stöðug að sögn Bratton. 

Hann segir að Thompson hafi tekið upp íslamstrú fyrir tveimur árum. Ættingjar hans segja að hann hafi verið einfari og þunglyndur. 

Hann var ekki á sakaskrá í New York en hafði verið handtekinn í alls sex skipti í Kaliforníu á árunum 2003 og 2004. 

Þá hafði hann gegnt herþjónustu í þrjú ár en var leystur frá störfum árið 2003. Lögreglan telur að það hafi tengst fíkniefnamáli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert