Styttist í bóluefni við ebólu

Evrópusambandið mun veita einn milljarð evra, 154 milljarða króna, í aðstoð  vegna ebólufaraldursins í Vestur-Afríku. WHO tilkynnti í dag um að byrjað verði gera tilraunir með bóluefni við ebólu í álfunni um miðjan desember.

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Herman Van Rompuy, greindi frá þessu í dag en þetta var samþykkt á leiðtogafundi ESB sem nú stendur yfir í Brussel.

Um er að ræða 400 milljónir evra til viðbótar við þær 600 milljónir sem ESB hefur þegar lagt í verkefni tengd ebólu í þeim ríkjum Vestur-Afríku sem hafa orðið verst úti, það er Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu. En í þessum þremur ríkjum eru þegar yfir 4.900 látnir úr sjúkdómnum. Meðal annars hefur ESB greitt laun hjúkrunarfólks og aðstöðu fyrir sjúklinga.

Það var forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, sem lagði til aukið fjárframlag en hann hvetur starfsbræður sína í ríkjum ESB til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að hefta útbreiðslu sjúkdómsins skelfilega. Sjúkdóms sem ekki er til nein lækning við né bóluefni. Um 70% þeirra sem sýkjast af ebólu deyja úr sjúkdómnum. Nokkur einangruð tilvik hafa komið upp í Bandaríkjunum og Evrópu en stjórnvöld í þessum ríkjum reyna nú að koma sem mestri hjálp til Vestur-Afríku í þeirri von að hægt verði að hefta útbreiðsluna þar sem hann hefur valdið mestum hörmungum.

Í gær var greint frá því að læknir sem starfaði í Gíneu en er búsettur í New York hefði greinst með ebólu eftir að hann kom heim aftur. Eins hefur fengist staðfest að ebóla er komin til Malí en í gær var greint frá því að tveggja ára gömul stúlka þar í landi væri sýkt af ebólu.

Mikil áhersla er lögð á faraldurinn og hvað sé til ráða á rástefnu leiðtoga ESB-ríkjanna í Brussel í dag. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hvetur bandalagið til þess að komast að samkomulagi um hversu marga eigi að senda til V-Afríku til þess að taka þátt í baráttunni þar.

Tvö bóluefni komin lengst

Tilraunir með ebólu-bólusetningar munu hefjast í Vestur-Afríku í desember, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Búast má við því að hundruð þúsunda skammta verði komnir til álfunnar um mitt næsta ár. 

Aðstoðarforstjóri WHO, Marie-Paule Kieny, greindi frá þessu í dag eftir að hafa setið á fundum með sérfræðingum í smitsjúkdómafræðum, fulltrúum lyfjafyrirtækja og fjárfestingastofa í gær.

Svo virðist sem það séu tvö bóluefni sem verði tilbúin og um leið dugi við ebólu. Um er að ræða kanadíska uppgötvun, rVSV, en efnið er að koma á nýjan leik til Genf þar sem það verður prófað áfram. Eins eru bundnar vonir við lyf GlaxoSmithKline, ChAd3, en auk þessara lyfja eru fimm önnur í prófunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert