Yfir 10.000 ebólusmit

Yfir 10.000 hafa smitast af ebóluveirunni og hafa 4.922 látist af völdum sjúkdómsins. Þetta segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO)

Faraldurinn er að langmestu leyti bundinn við þrjú lönd í Vestur-Afríku, þ.e. Síerra Leóne, Líberíu og Gíneu. Aðeins 27 ebólusmit hafa greinst í öðrum löndum, en aðeins 10 hafa látist af völdum sjúkdómsins annars staðar í heiminum. 

Malí bættist í gær í hóp þeirra ríkja sem hafa greint frá dauðsfalli vegna ebólu, en sjúkdómurinn dró tveggja ára stúlku til dauða. Rúmlega 40 eru nú í sóttkví, en þeir eru sagðir hafa komist í snertingu við barnið. 

WHO segir að ástandið sé verst í Líberíu, en þar hafa 2.705 látist. Í Síerra Leóne hafa 1.281 dáið og 926 í Gíneu.

Átta dauðsföll eru skráð í Nígeríu, eitt í Malí og eitt í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert