Brak úr vél Earhart fundið?

Amelia Earhart við vél sína á fjórða áratugnum.
Amelia Earhart við vél sína á fjórða áratugnum. AFP

Vísindamenn telja að álstykki sem fannst á óbyggðri kóraleyju í Kyrrahafinu, sé úr vél bandaríska flugmannsins Ameliu Earhart. Vél hennar hvarf sporlaust í júlí árið 1937 er Earhart freistaði þess að fljúga umhverfis jörðina.

Hópur rannsakenda, International Group for Historic Aircraft Recovery (TIGHAR), segir að rannsóknir hafi sýnt að álstykkið, sem fannst á eyjunni Nikumaroro árið 1991, sé úr vél Earhart.

Segir hópurinn að stykkið sé úr glugga vélarinnar.

Earhart flaug fyrst kvenna ein yfir Atlantshafið árið 1932. Hún hvarf imm árum síðar. 

Hún var nýbúin að hefja sig á loft frá Papúa Nýju-Geníu er vélin hvarf. Hafði hún þá lokið rúmlega helming leiðar sinnar umhverfis hnöttinn.

TIGHAR telur að Earhart hafi lent vél sinni á eyjunni, ekki getað látið vita af sér og dáið þar. Telur hópurinn að vélin hafi orðið eldsneytislaus. Earhart var ekki ein á ferð, með henni var siglingafræðingurinn Fred Noonan. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem TIGHAR heldur þessu fram. Er kenningin var fyrst kynnt til sögunnar árið 1992 fylltust margir efasemdum. Var m.a. bent á að álstykkið passaði engan veginn við vél Earhart.

Talsmaður hópsins, Ric Gillespie, hefur rannsakað hvarf Earhart í 26 ár. Eftir nokkurra ára rannsóknarvinnu telur hópurinn nú að álstykkið hafi verið sett í glugga vélarinnar er gert var við hana í maí árið 1937, skömmu áður en Earhart fór í leiðangur sinn. Þetta segir hópurinn myndir af vélinni frá þessum tíma m.a. styðja. 

Þá réð hópurinn sérfræðing til að rannsaka málið enn nánar. Bar hann saman myndina og álstykkið og segir ljóst að stykkið sé úr vél Earhart. „Þetta er eins og fingrafar,“ segir Gillespie í samtali við Sky-fréttastofuna. 

Annað sem hópurinn segir styðja kenningu sína er dæld í sjávarbotninum skammt frá eyjunni þar sem þeir telja að vélin hafi hrapað.

Frétt mbl.is: 10 dularfyllstu flugslysin

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert