Þriðja stúlkan látin

AFP

Shaylee Chuckulnaskit, 14 ára, lést á sjúkrahúsi í Washingtonríki í gærkvöldi en hún er þriðja unglingsstúlkan sem deyr af völdum sára sem fimmtán ára piltur veitti henni í skotárás í skóla þeirra fyrir viku síðan.

Chuckulnaskit og fjórir aðrir nemendur urðu fyrir árás Jaylen Fryberg, fimmtán ára, í mötuneyti Marysville Pilchuck menntaskólans föstudaginn 24. október. Fryberg framdi síðan sjálfsvíg en enn er allt á huldu um hvað fékk piltinn til þess að fremja þetta voðaverk.

Zoe Galasso, 14 ára lést samstundis en Gia Soriano, 14 ára, lést á sunnudagskvöldið. Tveir aðrir nemendur, Andrew Fryberg og Nate Hatch, særðust í árásinni en Fryberg var frændi beggja, segir í frétt CNN. Þeir eru báðir á sjúkrahúsi og er Andrew Fryberg alvarlega særður.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum sendi Jaylen Fryberg  fórnarlömbum sínum sms þar sem hann bað þau um að hitta sig í mötuneytinu. Engin starfsemi hefur verið í skólanum þessa vikuna en kennsla hefst að nýju á mánudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert