Ákærður fyrir að hrinda manni fyrir lest

Frá neðanjarðarlestarkerfinu í New York.
Frá neðanjarðarlestarkerfinu í New York. AFP

Karlmaður sem grunaður er um að hafa hrint ókunnugum manni fyrir neðanjarðarlest í New York með þeim afleiðingum að hann lést kom fyrir dómara í gær. Dómarinn ákvað að hann skyldi áfram í varðhaldi og að honum yrði ekki sleppt gegn tryggingu.

Maðurinn heitir Kevin Darden. Hann tjáði sig ekkert við fyrirtöku málsins í gærkvöldi.

Á sunnudag stóð hinn 61 árs gamli Wai Kuen Kwok ásamt eiginkonu sinni á brautarpalli í Bronx-hverfinu í New York. Darden er sagður hafa komið að honum og ýtti honum fyrir lestina sem var að koma inn að pallinum. Darden var svo handtekinn á þriðjudag og ákærður fyrir morð.

Lögmaður hans sagði fyrir utan dómshúsið í gær að ekki ætti að líta á Darden sem skrímsli heldur minnti á að hann væri aðeins maður sem ætti að líta á sem saklausan þar til annað kæmi í ljós.

Darden hefur oft verið handtekinn fyrir árásir og rán. Hann er á fertugsaldri og var handtekinn skammt frá heimili móður sinnar. 

Myndskeið náðist af því er maður ýtti Wai Kuen Kwok fyrir lestina á sunnudag og telur lögreglan að Darden hafi verið að verki.

Frétt mbl.is: Hrinti manni fyrir lest

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert