Ísinn brotinn með kvöldverði

Mikhail Zuhir ræðir við Jenny Sigurs og eiginmann hennar Urban …
Mikhail Zuhir ræðir við Jenny Sigurs og eiginmann hennar Urban Soederman eftir kvöldverð á heimili hjónanna í Sollentuna. AFP

Í Sýrlandi, heimalandi Mikhail Zuhir, kann bank á hurðina að næturlagi að þýða að dauðinn er nærri, en þegar Zuhir hringir bjöllunni á sænsku heimili á dimmu kvöldi, stendur hann við dyrnar með blóm í hendinni.

Fyrir innan bíða hans góðar móttökur og heit máltíð. „Eins og ég sé þetta, þá verður þér ekki boðið aftur ef þú mætir til kvöldverðar án þess að koma með blóm,“ segir hinn 29 ára gamli flóttamaður, og afhendir gestgjöfum sínum, Urban Soederman og Jenny Sigurs, blómvöndinn.

Þremenningarnir setjast niður við borðið þar sem hefðbundinn sænskur matur er á boðstólnum; lax, kartöflur og eplabaka með rjóma.

Um er að ræða verkefni sem gengur út á að auðvelda innflytjendum aðlögun að sænsku samfélagi. Það er hugarfóstur Ebbu Akerman, sem kennir sænsku sem annað tungumál, og byggir á þeirri hugmynd að þegar brjóta þarf ísinn, er fátt sem virkar jafnvel og að deila máltíð.

Akerman vonast til þess að verkefnið muni vekja umræður í samfélagi sem var löngum opið og umburðarlynt en þar sem Svíþjóðardemókratar, sem vilja gera róttækar breytingar á lögum um hælisleitendur, tvöfölduðu fylgi sitt í síðustu þingkosningum.

Þegar hún hóf að kenna innflytjendum sænsku fyrr á þessu ári komst hún fljótlega að því að hún var eina sænska manneskjan sem margir þeirra áttu samskipti við. „Ég sagði við sjálfa mig að þetta þyrfti að breytast, til dæmis yfir kvöldmat,“ segir hún.

Hugmynd Aakerman, sem hún prufukeyrði í mars, var einföld: að innflytjendur sem eru að læra sænsku hittu Svía yfir kvöldverði. Tilgangurinn er tvíþættur; að innflytjendur aðlagist samfélaginu og læri tungumálið, og að Svíar aðlagist nýjum samborgurum.

Fleiri en 100 hafa tekið þátt í verkefninu í Stokkhólmi og fleiri í öðrum borgum Svíþjóðar. Þá hefur hugmyndin verið tekin upp í Aþenu, Vilnius, Singapore og Nýju-Mexíkó.

Ég þarf að tala við Svía

„Við höfum alltaf velt því fyrir okkur hvað hægt er að gera til að aðstoða þá sem koma hingað, og til að opna hurðir okkar,“ segir Sigurs, sem tók á móti Zuhir í Sollentuna, norðvestur af Stokkhólmi. „Þetta er einfalt, praktískt og skiptir máli.“

Zuhir segist hafa heyrt af kvöldmáltíðunum hjá öðrum sænskunemendum. „Þeir áttu samræður og skemmtu sér. Og þá hugsaði ég með sjálfum mér: eftir hverju er ég að bíða? Mig langar að prófa þetta. Og þannig endaði ég hér,“ segir hann.

„Ég hef verið í Svíþjóð í um 10 mánuði og ég verð að tala við Svía ef ég ætla að bæta mig og samlagast betur. Með vinum mínum, þá reynum við að tala sænsku, en það gengur í mínútu og svo skiptum við í arabísku!" segir Zuhir.

Yfir kvöldmatnum rekur hann sögu sína fyrir áhugasama gestgjafana. Sem kristnum manni, fannst hann honum ekki lengur velkominn þar sem hann bjó, í litlum bæ nærri tyrknesku landamærunum. Auk þess er hann rafvirki en hafði aðeins rafmagn í um þrjá tíma á dag.

„Faðir minn sagði mér að fara úr landi. Ég valdi Svíþjóð af því að afi minn flutti þangað fyrir 23 árum og ég vissi að stjórnvöld myndu hjálpa okkur,“ segir hann. „Núna finnst mér ég loksins öruggur.“

Fordómarnir hverfa seint

Þrátt fyrir að um 20% íbúa Svíþjóðar eigi rætur sínar að rekja út fyrir landsteinana, segist einn af hverjum fimm Svíum ekki eiga samskipti við neinn sem komi frá landi utan Evrópu. Þrátt fyrir það er Zuhir sannfærður um að Svíþjóð sé staðurinn til að festa rætur á ný og hefur gert áætlanir fyrir framtíðina.

„Fyrst þarf ég að læra að tala sænsku vel, síðan þarf ég að fá viðurkenningu á reynslu minni sem rafvirki, og þá get ég fundið starf.“ Hann hefur lagt fótboltann á hilluna í bili, en áður lék hann sér með knöttinn alla daga. „Ég get hvort eð er ekki hlaupið þegar það er kalt. Það er algjörlega ómögulegt!“ segir hann.

Soederman, sem sjálfur man þá daga þegar hann lærði ensku sem táningur, segist vonast til þess að geta verið í sambandi við Zahir og veitt honum stuðning og aðstoð. Margir Svíar virðast vera á sama máli og hafa sett sig í samband við Akerman eftir kosningarnar í haust.

„Fólk vill taka þátt,“ segir Akerman. „Með verkefninu mínu hef ég komið á tengslum, fræi hefur verið sáð. Samlögun á sér fyrst og fremst stað með samskiptum einstaklinga.“

Kvöldmáltíðunum er ætlað að aðstoða innflytjendur við að aðlagast sænsku …
Kvöldmáltíðunum er ætlað að aðstoða innflytjendur við að aðlagast sænsku samfélagi en jafnframt Svíum að aðlagast nýjum samborgurum. AFP
Fjöldi fólks hefur sett sig í samband við Akerman eftir …
Fjöldi fólks hefur sett sig í samband við Akerman eftir þingkosningarnar, þar sem Svíþjóðardemókratar juku fylgi sitt um helming, og vilja taka þátt í verkefni hennar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert