Ofbeldi og skemmdarverk ekki svarið

Sumir hafa kallað eftir því að Wilson fari í lífstíðarfangelsi …
Sumir hafa kallað eftir því að Wilson fari í lífstíðarfangelsi fyrir að skjóta Brown. AFP

Faðir Michael Brown, sem var skotinn til bana af lögregluþjóni í Ferguson í Missouri í Bandaríkjunum í sumar hefur hvatt fólk til að halda stillingu en nú styttist í ákvörðun kviðdóms um hvort að lögregluþjónninn verði ákærður. 

Lögregluþjónninn, Darren Wilson, skaut Brown til bana þó svo að hann væri óvopnaður. Hann var átján ára gamall. Wilson heldur því fram að Brown hafi verið að reyna að ná byssunni af sér og því hafi hann skotið. 

Dauði Brown leiddi til ofbeldisfullra mótmæla í bænum sem stóðu yfir í margar vikur og breiddu úr sér um allan heim. Fylkisstjóri Missouri hefur nú kallað út þjóðvarðliðið á meðan beðið er eftir niðurstöðu kviðdómsins. 

Faðir Brown hefur nú sent frá sér mínútu langt myndband þar sem hann biður fólk um að taka ákvörðun kviðdómsins friðsamlega.

„Ég þakka ykkur fyrir að nota raddirnar ykkar til þess að stöðva kynþáttafordóma og kúgun frá lögreglu, en að beita ofbeldi eða eyðileggja eigur annarra er ekki svarið,“ sagði Michael Brown eldri í myndbandinu. 

„Sama hvað kviðdómurinn ákveður, þá vil ég ekki að dauði sonar míns verði til einskis,“ bætti hann við. 

Í Bandaríkjunum er sú regla að kviðdómur hittist í leyni til þess að ákveða hvort fólk verði ákært eða ekki. Kviðdómurinn gæti ákveðið að ákæra Wilson eða að málið verði lagt niður. 

Búist er við ákvörðun fljótlega. 

„Við búum hér saman, þetta er heimili okkar. Við erum sterkari í sameiningu. Haldið áfram að láta heyra í ykkur með okkur og vinnum saman að því að læknast, og til þess að skapa breytingar fyrir fólk sama af hvaða kynþætti það er,“ sagði faðir Brown. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert