Ógnaði öryggi hollenska ríkisins

AFP

19 ára hollensk stúlka sem fór til Raqqa í Sýrlandi til þess að ganga til liðs við Ríki íslams og giftast liðsmanni samtakanna kemur fyrir dómara í Hollandi í dag en hún er sökuð um að hafa ógnað öryggi hollenska ríkisins.

Stúlkan, sem heitir Aicha, var handtekin þegar hún kom til heimaborgar sinnar, Maastricht, í fyrradag, en móðir hennar, Monique, fór að landamærum Tyrklands og Sýrlands og aðstoðaði dóttur sína við að snúa aftur til heimalandsins. Móðirin var ekki handtekin en hún er ekki ákærð í málinu. Misvísandi fréttir eru um hvort móðirin, sem fór gegn vilja hollenskra stjórnvalda, fór inn í Sýrland og sótti dóttur sína eða hvort þær mæðgur hittust við landamærin.

Ekki er langt síðan Aicha tók upp íslamstrú og ákvað að ganga til liðs við Ríki íslams en nokkrar evrópskar stúlkur og konur hafa farið til Sýrlands og Íraks undanfarna mánuði til þess að styðja baráttu samtakanna.

Á vef BBC kemur fram að hluti þeirra hefur farið þangað á hugmyndafræðilegum forsendum á meðan aðrar hafa farið og gengið í hjónaband með liðsmönnum skæruliðasamtakanna.

Réttarhöldin verða fyrir luktum dyrum í dag en þar verður fjallað um hversu lengi verður hægt að halda Aichu án ákæru. Eftir þrjá mánuði verður mál hennar síðan tekið formlega fyrir. Þangað til hefur Aichu verið bannað að tala við aðra í fjölskyldu sinni fyrir utan móður sína og eins má hún ekki ræða við fjölmiðla.

BBC vísar í fréttir hollenska fjölmiða um að Aicha hafi farið frá Hollandi í febrúar til þess að giftast Omar Yilmaz, hollensk-tyrkneskum að uppruna, sem áður var í hollenska hernum. Hann lýsir sjálfum sér sem hjálparstarfsmanni í hlutastarfi, þjálfara og stríðsmanni án þess að gefa upp með hvaða skæruliðasamtökum hann starfar. 

Hann sagði við fréttamann BBC á miðvikudag að hann hefði kvænst Aichu eftir að annar skæruliði, sem hún ætlaði að giftast, lést í bardaga. „Þetta gekk ekki upp og við slitum samvistir. Hún fór sína leið og ég mína,“ sagði hann í viðtali við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert