Öllum fuglunum slátrað

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur varað ríki við því að vera á tánum …
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur varað ríki við því að vera á tánum hvað varðar ný afbrigði fuglaflensunnar. AFP

Yfirvöld í Hollandi hafa greint fuglaflensu á þremur sveitabæjum til viðbótar, en geta ekki staðfest á þessari stundu hvort um er að ræða það bráðsmitandi afbrigði sem greindist fyrr í vikunni.

Fyrsta tilfellið sem greindist í Hollandi kom upp á bæ austur af Haag, en hollenska efnahagsráðuneytið hefur staðfest að í öðru tilfelli, sem kom upp á bóndabæ nærri Tar Aar, hafi verið um að ræða hið bráðsmitandi afbrigði H5N8, sem hafði áður aðeins verið greint í Asíu.

Sum afbrigði fuglaflensu eru banvæn fuglum og ógna heilsu manna, sem geta veikst ef þeir meðhöndla sýkt fiðurfé. Stjórnvöld í Hollandi hafa sagt að fólk smitist aðeins ef það er í mikilli og beinni snertingu við fuglana.

Síðasta greinda tilfelli fuglaflensunnar í  Hollandi kom  upp á litlum bæ í Kaperveen, um 100 kílómetrum norður af svæðinu þar sem fyrstu tilfellin komu upp, sagði í tilkynningu frá efnahagsmálaráðuneytinu í dag.

Skömmu seinna upplýsti ráðuneytið að einkenna fuglaflensu hefði einnig orðið vart á tveimur öðrum bæjum, í innan við kílómeters fjarlægð frá bænum í Kamperveen.

Öllu fiðurfé á bæjunum þremur verður slátrað og staðirnir sótthreinsaðir. Þá verður rannsakað hvort fuglarnir hafi verið sýktir H5N8-afbrigðinu.

Síðastliðinn sunnudag bönnuðu yfirvöld í Hollandi alla flutninga á fiðurfé í landinu. Þá var um 150.000 fuglum slátrað á bænum í Hekendorp, sem liggur um 25 kílómetra suðaustur af Ter Aar.

Fleiri en 400 einstaklingar hafa látið lífið af völdum H5N8, flestir í suðaustur Asíu, síðan afbrigðið greindist fyrst 2003. 170 hafa látið lífið af völdum annars afbirgðis, H7N9, sem var fyrst greint 2013.

H7N7-afbrigði fuglaflensunnar hafði gríðarleg áhrif á alifuglarækt í Hollandi 2003, þegar yfirvöld slátruðu meira en 30 milljón fuglum til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Áætlað er að um 95 milljónir fuglar séu á hollenskum alifuglabúum en verðmæti eggjaútflutnings í Hollandi nam 10,6 milljörðum evra árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert