Carlsen fær að heyra það

Carlsen og Anand í Sochi
Carlsen og Anand í Sochi fide.com

Leonard Barden hefur skrifað vikulega pistla um skák í dagblaðið The Guardian í 59 ár. Í umfjöllun sinni um heimsmeistaraeinvígi Carlsens og Anands gefur hann í skyn að vinsældir Carlsens, og ýmis störf utan skákheimsins, séu líkleg skýring á lítilfjörlegri frammistöðu hans hingað til.

Carlsen, sem leiðir einvígið 5,5-4,5, er aðeins 23 ára gamall en varð í fyrra heimsmeistari eftir að hafa borið sigurorð af hinum indverska Anand. Þá sýndi hann snilli sína aftur og aftur en í einvíginu sem nú stendur yfir hafa báðir aðilar gert mörg mistök sem gætu hafa kostað þá sigurinn.

„Kannski eru truflanirnar í lífi Carlsens of margar; að sitja fyrir í tímaritum, heimsækja Real Madrid og skrifa handrit að Andrésar Andar-sögum. Það væri hins vegar ekki í fyrsta sinn sem sitjandi heimsmeistari léti líferni sitt trufla frammistöðuna við taflborðið,“ skrifar Barden og segir frá stórmeistaranum Jose Capablanca, sem átti það til að spila brids á milli þess sem hann tefldi heimsmeistaraeinvígi, auk þess sem hann var öflugur í félagslífinu. Þá nefnir Barden einnig Mikhail Botvinnik, sem ákvað að einbeita sér að vísindastörfum á milli þess sem hann tefldi um meistaratitla. 

Sjá pistil Bardens á vef The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert