Þúsundir rokka með AC/DC

AC/DC er ein söluhæsta hljómsveit í sögunni.
AC/DC er ein söluhæsta hljómsveit í sögunni. Af Facebook-síðu AC/DC

Þúsundir AC/DC-aðdáenda flykktust til smábæjarins The Rock í Ástralíu í dag til þess að vera viðstaddir útgáfu nýrrar plötu rokkhljómsveitarinnar. Er platan sú fyrsta sem sveitin gefur út í sex ár, og einnig sú fyrsta sem gefin er út án stofnmeðlimsins Malcolms Youngs, sem nú þjáist af heilabilun.

Nýja platan, sem heitir Rock or Bust, var spiluð fyrir aðdáendur sem gafst færi á að kaupa eintak.

„Það voru að minnsta kosti tvö þúsund aðdáendur, þetta var mjög vel sótt,“ sagði John Paterson, einn skipuleggjenda viðburðarins, í samtali við AFP-fréttastofuna. The Rocks er um 500 kílómetra suðvestur af Sydney, og er íbúafjöldinn þar undir þúsund manns. 

„Þetta var líklega mesti fjöldi sem við höfum séð hér mjög lengi,“ sagði Paterson. „Rock or Bust féll mjög vel í kramið þar sem nafnið á bænum okkar kemur fyrir í titli plötunnar ... Ég get lofað því að lagið verður nýr þjóðsöngur litla bæjarins okkar.“

Hljómsveitin hefur verið umdeild upp á síðkastið, en trommu­leik­ari sveit­ar­inn­ar, Phil Rudd, var fyrir skemmstu kærður fyrir að hafa reynt að ráða leigumorðingja til starfa til þess að taka tvo menn af lífi. Þá var hann einnig kærður fyrir vörslu fíkniefna. Rudd var ekki viðstaddur útgáfuna.

AC/DC, sem var fyrst stofnuð af Malcolm og Angus Young í Ástralíu árið 1973, er ein söluhæsta hljómsveit í sögunni. Til stendur að hljómsveitin fari í tónleikaferðalag um heiminn á næsta ári.

Rock or Bust er fyrsta plata sveitarinnar í sex ár.
Rock or Bust er fyrsta plata sveitarinnar í sex ár.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert