Voru viðbúnir því að yfirgefa evruna

AFP

Bæði hollensk og þýsk stjórnvöld létu setja saman áætlun um það með hvaða hætti hægt yrði að segja skilið við evruna og taka upp fyrri gjaldmiðla ríkjanna þegar efnahagserfiðleikarnir á evrusvæðinustóðu hvað hæst. Fréttavefurinn Euobserver.com greinir frá þessu.

Fram kemur í fréttinni að ráðamenn í Hollandi hafi látið undirbúa slíka áætlun á fyrri hluta ársins 2012. Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra landsins, hafi staðfest þetta í samtölum við hollenska fjölmiðla. Pólitískir forystumenn innan Evrópusambandsins hafi alltaf sagt að þeir vildu halda evrusvæðinu saman en ef hollensk stjórnvöld hafi einfaldlega spurt sig að því hvað gerðist ef það tækist ekki og í kjölfarið látið undirbúa áætlun um að segja skilið við evruna. Þessi áætlun hafi verið leynileg á sínum tíma en ekki væri þörf á að hjúpa málið leynd núna.

Haft er ennfremur eftir Dijsselbloem að fleiri evruríki hafi haft slíkar áætlanir og þar á meðal Þýskaland. Samstarf hafi jafnvel verið á milli Hollendinga og Þjóðverja í þeim efnum.

Þá segir í fréttinni að margir fjármálasérfræðingar telji að það sem hafi öðru fremur komið evrusvæðinu á lygnari sjó hafi verið yfirlýsing Marios Draghi, seðlabankastjóra Evrópska seðlabankans, sumarið 2012 að allt yrði gert til að bjarga evrunni. Hins vegar er haft eftir þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Timothy Geithner, að yfirlýsing Draghis hafi alls ekki verið undirbúin heldur aðeins gefin fyrirvaralaust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert