Fordæmdi ofbeldið í Ferguson

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi í dag ofbeldi sem braust út í bænum Ferguson í Missouri-ríki í kjölfar þess að kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til þess að ákæra lögreglumann sem skaut þeldökkan dreng til bana í ágúst.

„Það er engin afsökun fyrir því að brenna byggingar, kveikja í bifreiðum, eyðileggja eigur og stofna fólki í hættu,“ sagði Obama og hvatti til þess að þeir sem gerðust sekir um þátttöku í slíku yrðu sóttir til saka. „Þetta eru glæpsamleg athæfi.“ Forsetinn lýsti ennfremur samúð sinni með minnihlutahópum sem teldu að lögum væri ekki framfylgt með sanngjörnum hætti.

Obama hvatti ennfremur til þess að fólk tæki höndum sama um að finna leiðir til þess að stuðla að friðsömum breytingum. Atburðirnir í Ferguson hefði varpað ljósi á „bandarískt vandamál.“ Skemmdarverk leiddu ekkert gott af sér. 

„Ég hef aldrei séð umbætur í mannréttindamálum eða heilbrigðismálum eiga sér stað vegna þess að kveikt var í bifreið. Slíkt gerist vegna þess að fólk nýtir kosningarétt sinn. Vegna þess að fólk gerir eitthvað í málunum. Vegna þess að fólk leitar að bestu leiðunum til þess að leysa málin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert