Mótmælin breiðast út

Ríkisstjórinn í Missouri, Jay Nixon, ætlar að fjölga þjóðvarðliðum í bænum Ferguson en þeim hefur þegar verið fjölgað verulega í bænum og nágrenni. Kveikt var í lögreglubifreið og eitthvað var um innbrot og rán í verslunum og fyrirtækjum.  Mótmælt var víða um Bandaríkin í gærkvöldi, samkvæmt frétt New York Times og annarra bandarískra fjölmiðla.

Fyrr í vikunni komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að ákæra lögreglumanninn Darren Wilson sem skaut átján ára blökkumann, Michael Brown, til bana í bænum í ágúst.

Saksóknarinn Robert McCulloch sagði að kviðdómurinn hefði hlýtt á vitnisburð tuga manna sem segðust hafa séð atburðinn. Vitnisburður þeirra væri hins vegar mjög misvísandi og samræmdist í sumum tilvikum ekki niðurstöðum sérfræðinga í réttarvísindum. Í þeim tilvikum væru sönnunargögnin í málinu álitin áreiðanlegri en misvísandi vitnisburður. Nokkur vitnanna sögðust t.a.m. hafa séð lögreglumanninn skjóta Michael Brown í bakið, en engin skotsár fundust á baki hans.

McCulloch segir að lögreglumaðurinn hafi verið í eftirlitsferð í bíl þegar hann hafi séð Brown og vin hans ganga á miðri götu í Ferguson. Hann hafi þá séð að lýsing á manni, sem var grunaður um rán, passaði við Brown og því ákveðið að stöðva hann. Að sögn vitna upphófst þá rifrildi milli þeirra og lögreglumaðurinn sagði að Brown hefði teygt sig inn í bílinn og gripið í byssu hans. Lögreglumaðurinn skaut tveimur skotum inni í bílnum og Brown særðist á þumli. Við læknisskoðun kom síðar í ljós að lögreglumaðurinn var bólginn og marinn á andliti, að því er virtist eftir ryskingar.

Þegar Brown hljóp í burtu fór lögreglumaðurinn úr bílnum og skaut tíu skotum til viðbótar. Brown mun hafa snúið við eftir að lögreglumaðurinn hleypti af byssunni. Hann varð fyrir alls sjö skotum, m.a. í höfuðið.

Nokkur vitnanna sögðu Brown hafa lyft höndunum upp fyrir höfuðið en saksóknarinn sagði það stangast á við niðurstöður réttarlækna og frásagnir annarra vitna.

Að sögn Nixons hefur þjóðvarðliðum verið fjölgað í rúmlega tvö þúsund í bænum og fylgdust þeir grannt með mótmælendum. Færri tóku þátt í mótmælunum í nótt en nóttina á undan en við bæjarstjórnarskrifstofurnar var kveikt í lögreglubifreið og beitti lögregla táragasi á mótmælendur til þess að dreifa úr hópnum.

Samkvæmt frétt NYT tóku þúsundir þátt í mótmælum í New York borg í gærkvöldi og voru miklar tafir á umferð um borgina. Höfðu mótmælendur hátt og lokuðu helstu umferðargötum borgarinnar um tíma. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru nokkrir mótmælendur handteknir en ekki hefur verið upplýst um hve margir þeir voru. 

Mótmælt var í höfuðborginni við Hvíta húsið en þar fór allt friðsamlega fram. Svipaða sögu er að segja úr mörgum borgum og bæjum bæði á Vestur- og Austurströndinni. Í Los Angeles tóku um 500 þátt í mótmælagöngu en í Portland og Dever voru mótmælin ekki jafn friðsamleg og beitti lögregla piparúða á mótmælendur þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert