Drengurinn sem fyrstur fékk ebólu

Etienne Ouamouno heldur á mynd af eiginkonu sinni og tveimur …
Etienne Ouamouno heldur á mynd af eiginkonu sinni og tveimur börnum, Emile og Philomene. Emile er talinn sá fyrsti sem fékk ebólu í faraldrinum sem nú geisar. Ljósmynd/UNICEF

Emile Ouamouno var tveggja ára og bjó í afskekktu þorpi í Gíneu. Fyrir ári fékk hann hita, höfuðverk og blóð var í hægðum hans. Hann lést skömmu síðar. Fáum dögum seinna andaðist systir hans og ólétt móðir.

Þar með hófst faraldur ebólu í Vestur-Afríku. Faraldurinn er sá skæðasti hingað til og hefur fellt yfir 5.600 manns. Mörg hundruð börn hafa orðið munaðarlaus og líf þúsunda til viðbótar hefur umturnast vegna faraldursins. 

Þorp Emile litla er að finna djúpt inn í skógi í Gíneu. Trén þar eru talin hafa dregið að sér leðurblökurnar sem bera veiruna. Af þeim hefur svo Emile litli smitast. 

Það sem talið er hafa gerst, og orðið til þess að úr varð faraldur, var að heilbrigðisstarfsfólk í þorpinu smitaðist og bar veiruna þorpa á milli. 

Því miður var það þannig að fyrstu dauðsföllin kveiktu ekki á neinum viðvörunarljósum. Þorp Emile er einangrað og langt er til næstu borgar. Þá er fólk orðið vant því að veikjast og fá einkenni sem líkjast þeim sem fylgja ebólu. 

Til viðbótar fer fólk frá Gíneu yfir landamærin til Líberíu og Síerra Leóne til að selja afurðir sínar á mörkuðum. Þannig komst veiran til allra þriggja landanna og hóf að breiðast út með skelfilegum afleiðingum. Þrír mánuðir liðu frá dauða Emile og þar til uppgötvaðist að ebóla væri farin að láta á sér kræla á ný.

Fyrst í stað voru því sjúkrahús nokkurs konar útungunarstöð fyrir ebólu-veiruna. Heilbrigðisstarfsfólk taldi sig vera að fást við kóleru eða svokallaða Lassa-sótt en var í raun að fást við fólk sýkt af hinni bráðsmitandi - og bráðdrepandi - ebóluveiru. Og læknar og annað hjúkrunarfólk veiktist.

Af þeim fimmtán fyrstu sem vitað er að létust úr ebólu, samkvæmt grein í New England Medical Journal, voru fjórir heilbrigðisstarfsmenn.

Í fréttaskýringu BBC um upphaf og þróun ebólufaraldursins kemur fram að útfararsiðir í Vestur-Afríku hafi svo enn orðið til þess að auka á hraða útbreiðslunnar. Lík eru þvegin, snert og kysst og jarðarfarirnar eru mjög fjölmennar, oft mæta mörg hundruð manns og frá stóru svæði. Jarðarfarir sem þessar urðu því til þess að breiða veiruna hratt út.

Þegar ljóst var að faraldur ebólu væri hafinn voru löndin þrjú, þar sem fyrstu tilfellin komu upp, illa í stakk búin að takast á við hann. 23. mars lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin því yfir að faraldurinn væri staðreynd. 

Læknar í þessum löndum eru alltof fáir miðað við mannfjölda. Þeir voru það fyrir, en þegar ebólan kom upp varð ástandið skelfilegt. Í Líberíu eru 70 þúsund íbúar á hvern lækni. Í Síerra Leóne eru 45 þúsund manns á hvern lækni. Í Þýskalandi eru 260 manns á hvern lækni. 

Fréttaskýring BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert