Leysa spillt lögregluembætti upp

Enrique Peña Nieto, forseti Mexíkó, kynnir tillögur sínar gegn spillingu.
Enrique Peña Nieto, forseti Mexíkó, kynnir tillögur sínar gegn spillingu. AFP

Um 1.800 lögregluembætti í Mexíkó verða leyst upp og alríkisstjórnin tekur við lögreglumálum í staðinn samkvæmt tillögum sem Enrique Peña Nieto, forseti landsins, kynnti í dag. Með þeim freistar forsetinn þess að vinna bug á landlægri spillingu innan lögreglu landsins sem hefur meðal annars átt þátt í ofbeldisöldunni þar.

Mikil reiði hefur ríkt í mexíkósku samfélagi í kjölfar þess að lögreglumenn voru bendlaðir við morð á 43 námsmönnum í borginni Iguala í Guerrero-ríki í september. Rétt áður en Peña Nieto náði að kynna tillögur sínar í dag var svo tilkynnt að lík ellefu manns sem höfðu verið afhöfðaðir hefðu fundist í sama ríki.

„Nú er nóg komið. Mexíkó verður að breytast,“ sagði forsetinn í ræðu í forsetahöllinni að viðstöddum þingmönnum, ríkisstjórum og fulltrúum ýmissa samtaka.

Til þess að bregðast við landlægri spillingunni hyggst Peña Nieto leggja til umbætur á stjórnarskrá landsins sem gerir alríkisyfirvöldum kleift að taka við lögreglumálum í ríkjum, borgum og héruðum þar sem glæpahringir hafa náð undirtökunum. Breytingarnar myndu fyrst taka gildi í þeim fjórum ríkjum þar sem ofbeldið hefur verið hvað verst; Tamaulipas, Jalisco, Michoacán og Guerrero.

Saksóknarar í borginni Iguala þar sem námsmennirnir 43 voru myrtir halda því fram að borgarstjórinn þar hafi beðið lögreglu um að bjóða námsmönnunum birginn þar sem hann óttaðist að mótmæli þeirra gætu truflað ræðu eiginkonu hans.

Hrottar á vegum glæpasamtakanna Sameinaðra stríðsmanna (s. Guerreros unidos) hafa viðurkennt að hafa myrt námsmennina eftir að lögreglumenn komu þeim í þeirra hendur.

Líkin ellefu sem fundust í dag eru sögð af mönnum á þrítugsaldri. Á þeim voru skotsár eftir hríðskotabyssur og sum þeirra höfðu verið brennd fyrir utan að vera gerð höfðinu styttri. Við hlið líkanna voru skilaboð til þekkts glæpagengis: „Hér er ruslið ykkar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert