Skapari Dalgliesh fallinn frá

PD James árið 2001.
PD James árið 2001. AFP

Breski glæpasagnahöfundurinn PD James er látin, 94 ára að aldri. James var einna þekktust fyrir bækur sínar um rannsóknarlögreglumanninn Adam Dalgliesh, en fyrsta höfundarverk hennar, Cover Her Face (1962), var keypt af fyrsta útgefandanum sem James leitaði til.

Samfara því að Dalgliesh rannsóknarlögreglumaður kleyf metorðastigann innan lögreglunnar í bókum James, óx orðstýr höfundarins og verðlauansafn. Hún hlaut meðal annars demantsrýting breskra glæpasagnahöfunda og stórmeistaraverðlaun bandarískra ráðgátuhöfunda. Þá tók hún sæti í lávarðadeild breska þingsins 1991, fyrir Íhaldsflokkinn.

James fæddist 1920, hætti í námi 16 ára og giftist Ernest White 21 árs gömul. Hún flutti til Lundúna með eiginmanni sínu og eignaðist tvær dætur, á meðan Þjóðverjar létu sprengjum rigna yfir bresku höfuborgina.

Þegar eiginmaður James snéri aftur heim eftir stríð, átti hann við andleg veikindi að stríða og James sá fyrir fjölskyldunni með því að starfa á spítala. Á meðan dætur hennar námu í heimavistaskóla og maður hennar dvaldi á sjúkrhúsi, varði James kvöldunum við skriftir.

James hafði gaman af glæpasögum og líkaði sérstaklega vel þegar saga skiptist greinilega í upphaf, miðju og endi.

Cover Her Face hófst nákvæmlega þremur mánuðum áður en morðið var framið, í kvöldverði í sveitinni, þar sem söfnuðust undir eitt þak fórnarlamb og grunaðir. Þjónustustúlka tilkynnir um trúlofun sína og elsta óðalssonarins og er kyrkt næstu nótt, en ráðgátan er leyst af hinum fágaða Dalgliesh rannsóknarlögreglumanni.

„Ég ljáði honum eiginleika sem ég dáist að,“ sagði James um Dalgliesh 2001, „af því að ég vonaði að hann yrði langlíf persóna og því þyrfti ég að kunna við hann.“

Höfundurinn hafði rétt fyrir sér, Dalgliesh varð sannarlega langlífur, og glímdi við fjölda ólíkra ráðgáta í 14 skáldsögum. James vann sér alþjóðlega frægð þegar hún gaf út Innocent Blood, Saklaust blóð, árið 1980, en þá seldi hún réttinn að kiljuútgáfu bókarinnar og kvikmyndaréttinn fyrir meiri peninga en hún hafði unnið sér inn á tíu árum sem opinber starfsmaður.

Frétt Guardian um andlát James

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert