Orðaleikir ekki taldir gamanmál

Kínversk yfirvöld hafa sérstakar áhyggjur af því að börn geti …
Kínversk yfirvöld hafa sérstakar áhyggjur af því að börn geti orðið fyrir skaða af háskalegum orðaleikjum. AFP

Fjölmiðlaeftirlitið í Kína hefur varpað kínverja inn í kínverskt samfélag með því að banna orðaleiki. Þeir eru sagðir stangast á við lög um talaða og skrifaða kínversku, torvelda mönnum að kynna menningararfleið landsins og villa um fyrir fólki, ekki síst börnum. Þeir geti valdið menningarlegu og tungumálslegu öngþveiti.  

Kínversk menning eins og flestar aðrar er uppfull af ýmis konar orðaleikjum. Kínverska er reyndar sérstaklega vel til þess fallinn að leika sér með orðin því svo mörg orð ólíkrar merkingar eru borin fram eins í henni. Eftirlitsstofnun með prent- og ljósvakamiðlum er hins vegar nóg boðið og hefur ákveðið að skakka orðaleikinn.

„Útvarps- og sjónvarpsyfirvöld á öllum stigum verða að herða reglur sína og berjast gegn óvenjulegri og ónákvæmri notkun kínversks máls, sérstaklega misnotkun orðatiltækja,“ segir í grafalvarlegri tilskipun eftirlitsstofnunarinnar sem segist annt um menningararfleið Kína.

David Moser, framkvæmdastjóri stofnunar kínverskra fræða við Beijing Capital Normal-háskólann, segir að mögulegt sé að lítill hópur fólks, eða jafnvel ein manneskja, sem er íhaldssamt og laust við kímnigáfu standi að baki þessum aðgerðum. Vísunin til þess að vernda menningararfleið finnst honum furðuleg.

„Það er það fáránlegasta við þetta. Orðaleikir eru svo djúpstæður þáttur í kínverskri arfleifð,“ segir Moser.

Hina raunverulegu ástæðu fyrir banninu segir Moser vera þá að stjórnvöld vilji koma í veg fyrir að fólk geti farið háðulegum orðum um þau og stefnumál hennar. Netverjar í Kína hafa verið sérstaklega skapandi í að finna leiðir til að ræða málefni og fólk sem ritskoðendur stjórnvalda hafa lokað á. 

Frétt The Guardian af orðaleikjabanninu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert