Getur ekki fyrirgefið dauða hundsins

Teresa Romero á blaðamannafundi daginn sem hún fékk að fara …
Teresa Romero á blaðamannafundi daginn sem hún fékk að fara heim af sjúkrahúsinu. AFP

Spænski hjúkrunarfræðingurinn sem greindist með ebólu í haust hefur nú sóst eftir 150 þúsund evrum (23,3 milljónir íslenskra króna) í skaðabætur frá fyrrverandi heilbrigðisráðherra Spánar. Ráðherrann fyrrverandi sagði að hjúkrunarfræðingurinn, Teresa Romero Ramos, bæri sjálf ábyrgð á að hafa fengið sjúkdóminn. Ráðherrann baðst afsökunar á ummælunum og sagði síðar af sér.

Hjúkrunarfræðingurinn mun einnig sækjast eftir skaðabótum frá yfirvöldum vegna dauða hunds síns, Excalibur. 

Excalibur var tekinn af lífi stuttu eftir að Ramos greindist með ebólu. Var það gert af ótta við að hundurinn hafi smitast og gæti smitað aðra af veirunni. Ramos var ein þeirra sem bauð sig fram við að hjúkra spænskum trúboðum sem voru með ebólu. Hún sýktist í kjölfarið.

Í viðtali við CNN, sínu fyrsta alþjóðlega viðtali eftir að hún kom heim af sjúkrahúsinu, lýsir Romero því hvernig hún komst að því að Excalibur hafi verið lógað. 

„Enginn sagði mér hvað var að gerast fyrir utan veggi sjúkrahússins,“ sagði hún með tárin í augunum. Ramos vissi ekkert af umræðunni um hvort ætti að lóga hundinum eða ekki og ekkert um 400 þúsund undirskriftir gegn því. Þrátt fyrir allt var hundinum lógað. 

Sama dag og engin ebóla greindist í blóði Ramos þurfti eiginmaðurinn hennar að segja henni fréttirnar af örlögum Excalibur í símtali. „Ég man ekki neitt eftir þessu nema þegar það kom að dauða Excalibur. Ekki dauðinn sjálfur heldur hvernig honum var lógað áður en þeir vissu hvort að hann hafi smitast eða ekki,“ sagði hún. „Ég held að það hafi verið mun gáfulegra að setja hann í einangrun og fylgjast með honum í staðinn fyrir að fórna honum svona.“

Það var einmitt gert í Bandaríkjunum þegar að hjúkrunarfræðingurinn Nina Pham greindist með ebólu. Hundur hennar, Bentley, var í einangrun á meðan Pham var á sjúkrahúsi. Eftir að í ljós kom að Bentley hafði ekki smitast fékk hann að snúa aftur heim. 

Ramos skilur ekki enn í dag af hverju Excalibur var lógað.

„Þetta er skortur á viðkvæmni, skortur á mannlegum tilfinningum, þetta er viðbjóðslegt,“ sagði Ramos. 

Ramos og lögfræðingar hennar munu sækjast eftir öðrum 150 þúsund evrum (23,3 milljónum íslenskra króna) í skaðabætur vegna dauða hundsins. Ramos vill einnig sjá breytingar á reglum í sambandi við ebólu sjúklinga svo að aðrir þurfi ekki að ganga í gegnum það sama og hún.

Hún segist ekki enn hafa jafnað sig líkamlega á veirunni sem hefur drepið meira en 6000 manns í Vestur-Afríku. Hún er þó á batavegi. Ramos hefur þó ekki enn jafnað sig á dauða Excalibur. 

„Ef ég hefði vitað að þeir myndu drepa hundinn minn, þá hefði ég aldrei boðið mig fram.“

Viðtalið í heild sinni má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert