Munu dyrnar að friði opnast?

Reykur stígur til himins eftir loftárás Ísraelshers á borgina Rafah …
Reykur stígur til himins eftir loftárás Ísraelshers á borgina Rafah í suður Gaza í sumar. Rúmlega 2000 manns létust í átökum á Gaza í sumar. AFP

Palestínumenn hafa nú sent frá sér uppkast að ályktun sem gæti rutt brautina að friði milli Palestínu og Ísraels. Fulltrú Palestínu segir að það geti þó enn þurft að semja um innihald samningsins.

Uppkastið var kynnt öryggisráði Sameinuðu þjóðanna af fulltrúum Jórdaníu í ráðinu. Sendifulltrúinn Riyad Mansour gaf í skyn við blaðamenn að það þurfi að ræða uppkastið frekar. Þakkaði hann jafnframt Araba- og Evrópuþjóðum fyrir hjálpina. 

„Við munum halda áfram viðræðum með þeim öllum og með Bandaríkjamönnum ef þeir vilja og eru tilbúnir. Kannski tekst okkur að opna dyr að friði,“ sagði hann eftir fund með fulltrúum annara Arabalanda. 

„Það er allur vilji til þess að vinna með þeim sem vilja vinna með okkur að þýðingarmiklum hlutum,“ bætti hann við. 

Palestínumenn hafa sagst vilja snögga atkvæðagreiðslu um uppkastið. Þeir drógu það þó til baka eftir að hafa orðið fyrir þrýstingi frá öðrum Arabalöndum eins og Jórdaníu sem sækist eftir uppkasti sem Bandaríkin gætu samþykkt. 

Bandarísk stjórnvöld hafa nokkrum sinnum beitt neitunarvaldi gegn ályktunum öryggisráðsins sem gætu grafið undan Ísrael, en þjóðirnar eru bandamenn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert