Rannsaka þrjú morð á drengjum

Frá Dolphin Square
Frá Dolphin Square Skjáskot af Google Street View

Lögregla í Bretlandi telur hugsanlegt að þrír drengir hafi verið myrtir og morð þeirra tengist kynferðislegri misnotkun á börnum. Ekki er vitað hverjir drengirnir eru, hvenær þeir eiga að hafa verið myrtir og þá hafa líkin heldur ekki fundist.

Óskað hefur verið eftir upplýsingum í tengslum við Dolphin Square í suðvesturhluta London en talið er að drengirnir hafi verið misnotaðir í húsnæði á svæðinu. Í fjölbýlishúsi við götuna er meðal annars að finna íbúðir og fyrirtæki.

Lögregla rannsakar einnig staðhæfingar um starfsemi meintra barnaníðinga á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Talið er hugsanlegt að hermenn og háttsettir embættismenn hafi tekið þátt í brotunum. Lögregla fer nú í gegnum lista yfir horfna einstaklinga og óleyst barnamorð sem kunna að tengjast morðunum þremur.

Rannsóknin hófst eftir að maður steig fram og sagðist hafa orðið fyrir misnotkun af hópi barnaníðinga frá sjö ára aldri og þar til hann varð 16 ára. Hann sagði lögreglu meðal annars að hann hefði verið sóttur til að fara í „veislur“ þar sem hann var misnotaður af einum eða fleiri karlmönnum í íbúð við Dolphin Square í London.

Lögregla segir í samtali við BBC að lýsingar mannsins séu hræðilegar. Hún hvetur aðra drengi, unglingsstráka og karlmenn sem gætu hafa orðið fyrir misnotkun að gefa sig fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert