Ellefti læknirinn deyr úr ebólu í Síerra Leóne

Læknar mæla hita ebólusmitaðrar stúlku í Síerra Leóne. Um 7.000 …
Læknar mæla hita ebólusmitaðrar stúlku í Síerra Leóne. Um 7.000 manns hafa látist í faraldrinum í Vestur-Afríku. AFP

Læknirinn Victory Willoughby sem hefur verið í fararbroddi í baráttunni gegn ebólufaraldrinum í Síerra Leóne lést í gærmorgun, aðeins nokkrum klukkustundum sem lyf á tilraunastigi sem átti að gefa honum barst til landsins. Willoughby er ellefti læknirinn sem deyr af völdum ebólu í landinu.

Um 7.000 manns hafa látist í ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku. Willoughby, sem var 67 ára gamall, er ellefti læknirinn sem deyr af völdum sjúkdómsins en 120 læknar eru í landinu. Willoughby greindist með ebólu á laugardag. Landlæknir landsins segir að andlát hans sé meiriháttar áfall fyrir Síerra Leóne, að því er segir í frétt á vefsíðu breska blaðsins The Guardian.

Lyfið ZMAb sem hefur verið í þróun í Kanada var sent til landsins til þess að freista þess að bjarga Willoughby. Það barst hins vegar ekki í tæka tíð og lést hann áður en hægt var að gefa honum fyrsta skammtinn af lyfinu. Vonir höfðu verið bundnar við að lyfið gæti hjálpa lækninum þó enn hafi ekki verið sýnt fram á virkni lyfsins.

Fyrr á þessu ári lést eini veirufræðingur landsins, Dr. Shek Humar Khan, úr ebólu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert