Gefin raflost gegn samkynhneigð

Fáni LGBT-fólks.
Fáni LGBT-fólks. AFP

Dómstóll í Beijing dæmdi í dag sálfræðistofu til að greiða hinum samkynhneigða Yang Teng skaðabætur fyrir að hafa gefið honum raflost sem áttu að snúa honum til gagnkynhneigðar. Yang segir meðferðina hafa skaðað sig jafnt líkamlega og andlega.

Lögfræðingur Yang segir að dómstólinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að engin þörf hafi verið á að gefa raflost þar sem að samkynhneigð krefðist ekki meðferðar. Sálfræðistofan var dæmd til að greiða Yang skaðabætur sem nema jafnvirði rúmra 70.000 króna vegna meðferðarinnar sem hann fékk þar.

AP-fréttastofan hefur eftir Yang að hann sé afar sáttur við niðurstöðuna sem hafi komið honum á óvart. Dómarinn hafi fallist á það sjónarmið hans að samkynhneigð væri ekki geðröskun sem krefðist meðferðar. Hann segir að hann hafi meðal annars verið látin undirgangast dáleiðslu og raflost sem hluta af meðferðinni á sálfræðistofunni. Hann segist hafa undirgengist meðferðina sjálfviljugur í febrúar vegna þrýstings af hálfu foreldra hans um að hann gifti sig og eignaðist börn.

Margir samkynhneigðir karlmenn eru sagðir í sömu sporum og Yang í Kína. Þeir þurfi að gifta sig og viðhalda fjölskyldunni. Umburðarlyndi gagnvart samkynhneigð sé þó að aukast í landinu. Kínversk yfirvöld hættu að skilgreina hana sem geðsjúkdóm árið 2001. Engin lög eru hins vegar gegn mismunun vegna kynhneigðar og sambönd samkynhneigðra njóta ekki viðurkenningar hins opinbera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert