Fundu hríðskotabyssu í farangrinum

Flugvélin var á leið til Ístanbúl frá Vínarborg.
Flugvélin var á leið til Ístanbúl frá Vínarborg. AFP

Austurrískur maður og tyrknesk kona voru handtekin um borð í flugvél á Vínarflugvelli í gær, eftir að hríðskotabyssa og skotfæri fundust í farangri þeirra. Átti flugvélin að fara frá Vín til Ístanbúl í Tyrklandi.

„Parið var komið um borð í flugvélina þegar hríðskotabyssan og skotfærin fundust í farangrinum sem þau höfðu innritað við komuna á flugvöllinn,“ segir talsmaður innanríkisráðherra Austurríkis í samtali við fréttaveitu AFP.

Engar vísbendingar eru um að parið, sem er í kringum fertugt, hafi ætlað að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki Íslams. Rannsókn á því mun þó halda áfram.

Austurríki er í hópi þeirra Evrópuríkja sem hafa séð fjölda fólks streyma úr landi til að ganga í raðir hryðjuverkamanna í Mið-Austurlöndum, en Tyrkland er helsta gáttin til þeirra landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert