Eiga 34 börn

Jeane og Paul Briggs með börnin 34.
Jeane og Paul Briggs með börnin 34.

Jeane og Paul Briggs eiga 34 börn, en þar af hafa þau ættleitt 29 börn frá ýmsum heimshornum. Fjölskyldan er enn að stækka.

Árið 1985 var Jeane Briggs í kirkju þegar henni var sýnd mynd af tveggja ára dreng. Hann bjó á munaðarleysingjaheimili í Mexíkó. Hann var blindur og hafði verið laminn svo svakalega að fætur hans voru brotnir og hann var með heilaáverka.

Myndin hafði svo sterk áhrif á Jeane að hún ákvað að fara til Mexíkó ásamt eiginmanni sínum og heimsækja drenginn. Í framhaldinu tóku þau ákvörðun um að ættleiða hann.

Abraham er núna 31 árs og býr með fjölskyldu sinni í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Hann á kærustu. Þrátt fyrir að hafa þolað alvarleg áföll í æsku hefur hann náð að þróa með sér tónlistarhæfileika. Hann leikur á píanó og semur tónlist.

Frá því að Abraham varð hluti af Briggs-fjölskyldunni hafa bæst við 28 börn frá Rússlandi, Úkraínu, Búlgaríu og Gana. Jeane og Paul eiga til viðbótar fimm börn saman. Samtals eiga þau því 34 börn.

Þau eru ekki hætt því á næstunni bætast við tveir litlir drengir frá Gana. „Þeir eru þriggja mánaða gamlir og fundust yfirgefnir í limgerði,“ segir Jeane.

Sagt er frá þessari óvenjulegu fjölskyldu á BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert