Móðirin formlega ákærð

Lögreglan í Ástralíu hefur formlega ákært sjö barna móður frá borginni Cairns í Ástralíu fyrir að hafa myrt átta börn, þar af sjö sem hún átti sjálf.

Tvítugur sonur konunnar kom að heimilinu á föstudaginn og lét lögreglu vita um voðaverkin. Móðirin var með stungusár sem hún hafði veitt sjálfri sér. Hún var flutt á sjúkrahús. Hún er ekki í lífshættu.

Lögreglan segir að um sé að ræða flókna rannsókn sem taki tíma. Hún hefur ekki gefið upp dánarorsök barnanna, en fjölmiðlar hafa sagt að þau hafi verið með stungusár. Lögreglan sagði í gær að verið væri að rannsaka hvort sum börnin hefðu verið kæfð.

Konan átti börnin sjö með fimm mönnum. Við minningarathöfn í gær sást faðir þriggja yngstu barnanna kalla: „Börnin mín, börnin mín.“ Faðir elsta barnsins lýsti því hvenær hann hitti síðast dóttur sína. Hún hefði beðið hann að gefa sér peninga, en hann hefði sagt að hann myndi gefa henni gjöf á laugardaginn, þegar hún ætti afmæli. „Ég átti fallega dóttur,“ sagði maðurinn.

Í samfélagsmiðlum í Ástralíu hefur farið fram umræða um að vandamál hafi fylgt fjölskyldu móðurinnar. Lögreglan sagði á blaðamannafundi í gær að þetta hefði ekki verið vandamálaheimili. Nágrannar konunnar segja einnig að hún hafi hugsað vel um börnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert