Hinn eini sanni jólabær

Í kringum jólin fyllum við heimili okkar af allskonar jólaskrauti …
Í kringum jólin fyllum við heimili okkar af allskonar jólaskrauti og ljósum. Mest af því er framleitt í Kína í borginni Yiwe. Kristinn Ingvarsson

Þegar fólk hugsar um jólin kemur oftar en ekki upp í hugann jólasveinar, hreindýr, snjór og hjálparálfar jólasveinsins. Til að lýsa upp myrkrið skreytum við í kringum okkur með þúsundum lítilla LED ljósapera og setjum upp allskonar jólaskraut. Á mörgum stöðum eru settir upp jólamarkaðir og jafnvel heil jólaþorp. Ekkert þeirra skákar þó við hinum eina sanna jólabæ Yiwu í Kína.

Það sem greinir Yiwu þó frá hinum jólabæjunum sem við þekkjum svo vel er að þar er enginn snjór og fæstir vita í raun hvað jólin eru. Aftur á móti eru þar um 600 verksmiðjur sem framleiða um 60% af öllum jólaskreytingum heimsins þar sem farandverkamenn vinna í allt að 12 tíma á dag fyrir 300 - 450 Bandaríkjadali á mánuði, sem eru í kringum 50 þúsund íslenskar krónur. 

Í frétt á vef breska blaðsins The Guardian er haft eftir starfsmanni í einni verksmiðjunni að hann viti ekki alveg hvað jólin gangi út á „Kannski er þetta eins og [kínverska] nýjárshátíðin fyrir útlendinga.“ Starfsmaðurinn kom ásamt föður sínum að vinna í verksmiðjunni til að safna upp fyrir brúðkaupinu sínu. Saman dýfa þeir plastsnjókornum í lím og spreyja þau svo með rauðu spreyi. Á hverjum degi framleiða þeir um fimm þúsund slík stykki. 

Til að verja sig frá rauða litnum klæðist faðir hans jólasveinahúfu til að hárið verði ekki alveg rautt. Þá segir hann að þeir fari allavega með tíu andlitsmaska á hverjum degi, en ljóst er að umhverfið er talsvert mengandi fyrir öndunarfærin.

Í borginni Yiwu er stærsti heildsölumarkaður heims með smávöru, en í Yiwu International Trade Market eru fjórir milljón fermetra lagðir undir allskonar plastvarning og annað smádót. Um 62.000 framleiðendur sýna þar vörur sínar og er miðstöðinni skipt upp í fimm hverfi. Í hverfi tvö er meðal annars jólavaran til sýnis, en yfir 400 þúsund vörur eru þar til sýnis. 

Kaupendur allsstaðar úr heiminum safnast saman á markaðinum til að líta vörurnar augum. Eru þær jafnan keyptar í stórum upplögum og sendar yfir hafið þar sem væntanlegir kaupendur bíða þess að geta lýst upp skammdegið með fallegu rauðu skrauti sem er á ódýrari enda verðbilsins.

Hægt er að sjá hér fleiri myndir frá verksmiðjum og sölubásum í Yiwu á heimasíðu The Guardian.

Það tilheyrir jólunum að skreyta hús og lífga upp á …
Það tilheyrir jólunum að skreyta hús og lífga upp á nærumhverfið með jólaskreytingum af ýmsu tagi. Kristinn Ingvarsson
Yiwu International Trade Market, þar sem um 60% af öllu …
Yiwu International Trade Market, þar sem um 60% af öllu jólaskrauti í heiminum er selt. Mynd/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert