Hvattir til að vera í skotheldum vestum

Lögreglumannanna minnst í New York.
Lögreglumannanna minnst í New York. AFP

Lögregluembætti víða um Bandaríkin skipa nú lögreglumönnum sínum að ganga í skotheldum vestum. Verkalýðsfélög lögreglumanna hafa hvatt til þess sama. Mikil ólga er víða um Bandaríkin vegna morða á lögreglumönnum í New York um helgina. Síðustu mánuði hafa fjölmenn mótmæli átt sér stað víða um landið vegna mála er tengjast drápum hvítra lögreglumanna á óvopnuðum, svörtum mönnum.

Tveir lögreglumenn voru skotnir í höfuðið í New York á laugardagskvöld. Þeir sátu í bíl sínum við eftirlitsstörf. Sá sem myrti þá, hinn 28 ára gamli Ismaaiyl Brinsley, hafði hótað ofbeldi á samfélagsmiðlum. Hann svipti sig lífi eftir að hafa skotið lögreglumennina.

Brinsley var svartur. Lögreglumennirnir voru af asísku og suðuramerísku bergi brotnir.

Í kjölfar morðanna sendi verkalýðsfélag lögreglumanna út skilaboð til 35 þúsund lögreglumanna í borginni og sagði þeim að fara ekki í útköll nema á tveimur bílum samtímis. Þá voru lögreglumennirnir hvattir til að handtaka ekki fólk nema að brýna nauðsyn beri til. Þetta kemur fram í fréttaskýringu AP-fréttastofunnar.

Sambærileg skilaboð voru einnig send út til lögreglumanna í New Jersey. Í þeim voru lögreglumenn hvattir til að forðast fólk sem væri að leita eftir átökum. Þá hefur lögreglustjóri innan lögreglunnar í New York hvatt sitt fólk til að gæta orða sinna á samfélagsmiðlum.

Þeir sem standa að mótmælum vegna hörku lögreglu gagnvart svörtum mönnum, verið beðnir að hvetja til stillingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert