Netið liggur niðri í N-Kóreu

Starfsmenn í Hollywood taka niður auglýsingaspjöld fyrir kvikmyndina The Interview. …
Starfsmenn í Hollywood taka niður auglýsingaspjöld fyrir kvikmyndina The Interview. Sony ákvað að hætta við að sýna myndina af hættu við hryðjuverk. AFP

Svo virðist sem að Internetið liggi nánast alveg niðri í Norður-Kóreu. Þarlend stjórnvöld hafa verið bendluð við netárás á fyrirtækið Sony og hefur Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagt að árásinni verði svarað. Ekki liggur fyrir hvort að nettruflanirnar tengist þeim orðum hans.

AP-fréttastofan hefur eftir tölvusérfræðingi að vandamálið með nettenginguna í Norður-Kóreu hafi uppgötvast fyrir um sólahring og hafi ágerst síðan. Netið liggi nú nær algerlega niðri í landinu.

Fulltrúar Hvíta hússins hafa neitað að tjá sig um fréttirnar. Talskona utanríkisráðuneytisins sagði bandarísk stjórnvöld skoða ýmsa möguleika til að svara árásinni á Sony sem varð meðal annars til þess að fyrirtækið hætti við að sýna gamanmyndina „The Interview“. Myndin fjallar um áform leyniþjónustunnar CIA um að drepa leiðtoga Norður-Kóreu. Sagði talskonan að sum svörin yrðu auðsjáanleg en önnur ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert