Dómurinn styttur í eitt ár

Áfrýjunardómstóll í Egyptalandi stytti í dag fangelsisdóm yfir átta mönnum sem sáust á myndskeiði úr brúðkaupi samkynhneigðra manna úr þremur árum í eitt ár. Mennirnir voru handteknir í september og var handtakan liður í aðgerðum stjórnvalda gegn fólki sem grunað er um samkynhneigð.

Í nóvember voru mennirnir átta dæmdir í þriggja ára fangelsi í undirrétti fyrir að hafa brotið gegn almennu velsæmi. Þeir voru handteknir eftir að myndskeið sem var tekið upp á fljótabáti á Níl sýndi samkomu sem saksóknari sagði vera hjónavígslu tveggja homma, þar sem þeir kysstust og skiptust á hringum. Auk þess skáru þeir köku sem skreytt var með mynd af þeim. Myndskeiðið vakti mikla athygli og var dreift á YouTube, Facebook og Twitter.

Að sögn fréttamanns AFP sem var í réttarsalnum þegar dómurinn var kveðinn upp olli hann ættingjum þeirra og vinum miklum vonbrigðum enda höfðu þeir gert ráð fyrir að mennirnir yrðu sýknaðir.

Samkynhneigð er ekki bönnuð sem slík með lögum í Egyptalandi en mennirnir voru sakaðir um siðspillingu. Fallið var frá þeirri ákæru eftir að þeim var gert að sæta ítarlegri læknisrannsókn sem leiddi í ljós að enginn þeirra hafði ítrekað stundað endaþarmsmök.

Verjendur mannanna neituðu því ítrekað fyrir dómi að mennirnir væru samkynhneigðir og sögðu að dómarar hefðu látið undan þrýstingi og dæmt þá seka.Einn mannanna sagði frá því í spjallþætti í sjónvarpi að myndskeiðið hafi verið tekið upp í afmælisveislu. 

AFP
Mennirnir átta þurfa að dúsa á bak við lás og …
Mennirnir átta þurfa að dúsa á bak við lás og slá í eitt ár fyrir að hafa sést á myndskeiði sem talið er að hafi verið tekið í brúðkaupi homma AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert