Handtekin á leið í heilagt stríð

Vígamenn Íslamska ríkisins.
Vígamenn Íslamska ríkisins. AFP

Sex manns voru í dag handtekin í Indónesíu en þau reyndu að flýja til Sýrlands þar sem þau ætluðu að ganga til liðs við Íslamska Ríki íslams. Voru einstaklingarnir sex handteknir á Soekarno Hatta flugvellinum í höfuðborg Indónesíu, Jakarta. Meintur skipuleggjandi ferðarinnar var einnig handsamaður eftir handtökurnar.

Meðal þeirra sem handteknir voru var par með tíu ára gamalt barn og segir lögreglu parið hafa framvísað fölsuðum vegabréfum þegar þau reyndu að komast úr landinu.

„Þau viðurkenndu í yfirheyrslum að ætlunin hefði verið að gerast píslarvottar og taka þátt í heilögu stríði,“ sagði talsmaður lögreglu í Jakarta.

„Við vonumst eftir því að fá frekari upplýsingar frá skipuleggjandanum, meðal annars hver hafi borgað fyrir ferðina,“ bætti hann við.

Það hefur fjölgað töluvert í hópi Indónesa sem styðja Ríki íslams en í júní fóru 86 einstaklingar frá landinu til að taka þátt í heilögu stríði en fjöldinn var 264 í október samkvæmt tölum stofnunar sem fylgist með hryðjuverkaógn í Indónesíu.

Í heildina er áætlað að 514 manns hafi farið til Sýrlands og Íraks frá Indónesíu til að berjast með vígasveitum Ríkis íslams og telja nemendur og innflytjendur úr nálægum löndum um helming þeirra. Mikill fjöldi múslima víðs vegar að úr heiminum hafa dregist að samtökunum að undanförnu en Ríki íslams lýsti því yfir fyrr á þessu ári að stofnað hefði verið kalífadæmi á þeim svæðum sem vígasveitir Ríkis íslams hafa náð yfirráðum í Sýrlandi og Írak.

Indónesía hefur gengið hart að hryðjuverkahópum síðastliðinn áratuginn og gripið til róttækra aðgerða í baráttu sinni gegn þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert