Minntust þeirra látnu í Glasgow

Blómvendir til minningar um fórnarlömb slyssins. Myndin er úr safni.
Blómvendir til minningar um fórnarlömb slyssins. Myndin er úr safni. AFP

Á bilinu 1.000 til 1.500 manns komu saman í miðborg Glasgow í dag til að minnast þeirra sem létust þegar ruslabíl var ekið inn í hóp vegfarenda á mánudag. Sex manns létust og tíu slösuðust þegar ökumaður bílsins missti stjórn á honum.

Athöfnin fór fram nærri staðnum þar sem slysið átti sér stað á Drottningargötu og Georgstorgi. Hundruðum blómvanda og kerta hafði verið komið fyrir til minningar um fórnarlömbin.

Fernt liggur enn á sjúkrahúsi eftir slysið, tvær táningsstúlkur, 14 og 18 ára, 64 ára gömul kona og ökumaðurinn sem er 57 ára gamall. Ástand þeirra er sagt stöðugt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert