Boko haram ræðst á stórborg í Nígeríu

AFP

Öfgahópurinn Boko haram réðst í nótt á borgirnar Monguno og Maiduguri í Nígeríu og standa nú yfir harðir bardagar á svæðinu á milli þeirra og nígeríska hersins. Maiduguri er höfuðborg Borno-fylkisins í landinu og yrði það gríðarlega mikið áfall fyrir Nígeríumenn ef öfgahópurinn næði borginni á sitt vald.

Síðastliðið ár hefur öfgahópurinn staðið fyrir fjölmörgum árásum á smábæi í landinu auk þess sem hann hefur framið hverja hryðjuverkaárásina á fætur annarri, meðal annars í höfuðborginni Abuja. 

Í gær réðst hópurinn á bæinn Kambari, skammt frá Maiduguri. 15 manns létu lífið í árásinni, á meðal þeirra bæjarstjórinn. Íbúi í bænum lýsir því fyrir fjölmiðlum að hún hafi misst fjögur börn í árásinni. „Þeir skutu börnin mín fyrirvaralaust. Ég þurfti að yfirgefa bæinn strax með barnabörnin mín því þeir tóku húsin okkar,“ sagði konan í samtali við Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert