„UKIP orðinn flokkur eiginhagsmuna“

David Cameron hélt blaðamannafund með nýjasta Evrópuþingmanni Íhaldsflokksins, Amjad Bashir …
David Cameron hélt blaðamannafund með nýjasta Evrópuþingmanni Íhaldsflokksins, Amjad Bashir í fyrradag. EPA

„Þetta er pólitísk ákvörðun,“ sagði Amjad Bashir, Evrópuþingmaðurinn sem í fyrradag gekk til liðs við Íhaldsflokkinn úr Breska sjálfstæðisflokknum (UKIP). Flokkaskiptin hafa vakið töluverða athygli því stuttu fyrir jól fóru tveir þingmenn Íhaldsflokksins gagnstæða leið. 

Bashir, sem flutti til Bretlands átta ára gamall frá Pakistan og á að baki farsælan feril í viðskiptalífinu, hélt á föstudaginn blaðamannafund með David Cameron, formanni Íhaldsflokksins. 

„Ástæðan fyrir því að ég hóf afskipti af stjórnmálum eftir feril í viðskiptalífinu var að ég vildi leggja mitt af mörkum. Mér fannst við þurfa þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og ég trúði því að UKIP myndi sjá til þess að slík atkvæðagreiðsla yrði haldin,“ segir Bashir og bætti við: „Aðeins Íhaldsflokkurinn er í stöðu til þess að herða reglur um innflytjendur, sem til að mynda pakistanskir innflytjendur telja sjálfir að sé nauðsynlegt að gera.“

Bashir skaut síðan föstum skotum að UKIP. „Frá því að ég settist á þing fyrir UKIP hef ég komist að því að fyrir utan baráttuna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þá er UKIP orðinn flokkur eiginhagsmuna. Ég mun samt ekki gagnrýna fyrrverandi flokksfélaga mína persónulega,“ sagði Bashir. 

Frétt The Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert