Búa sig undir „sögulegan“ storm

Maður tekur myndir af gæsum í Prospect Park í Brooklyn …
Maður tekur myndir af gæsum í Prospect Park í Brooklyn í New York borg um helgina. AFP

Spáð hefur verið miklu vetrarveðri á norðausturströnd Bandaríkjanna í dag. Búa íbúar sig undir storminn, sem gæti orðið „sögulegur“.

Talið er að stormurinn hefjist í New York borg í dag og er því spáð að snjódýptin verði um 60 sentímetrar. Gert er ráð fyrir því að stormurinn nái yfir stórt svæði, eða frá Fíladelfíu alla leið til Nýja-Englands.

Veðurstofa Bandaríkjanna hefur gert ráð fyrir því að stormurinn hafi áhrif á líf 29 milljóna manna og hefur rúmlega 3.100 flugferðum verið aflýst í dag og á morgun. 

Samkvæmt frétt bandarísku fréttastofunnar NBC nær stormurinn hámarki seint í kvöld og í nótt og gæti hann náð upp í styrkleika fellibyls.

„Þetta gæti orðið stærsti bylur í sögu borgarinnar,“ sagði Bill de Blasio, borgarstjóri New York, á blaðamannafundi í gær. „Skilaboð mín til íbúa New York eru að undirbúa sig fyrir eitthvað sem er verra en það sem þeir hafa séð áður.“

Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, hefur hvatt fólk til þess að halda sig heima og sagði að mögulega gætu skapast hættulegar aðstæður. Jafnvel þyrfti að loka neðanjarðarlestarkerfi New York-borgar, sem og öðrum samgönguleiðum. Fjölmargir skólar í New York borg ætla að ljúka skólahaldi snemma í dag vegna veðursins. 

Í Boston voru borgarstarfsmenn að birgja sig upp af salti og sandi til þess að hreinsa göturnar. Varað var við því að þungur og blautur snjór gæti valdið rafmagnsleysi. 

„Takið þetta mjög alvarlega,“ sagði borgarstjóri Boston, Marty Walsh. Hvatti hann borgarbúa til þess að undirbúa sig eins fljótt og auðið er. „Ekki geyma það fram á síðustu stundu, því þessi stormur gefur okkur sólarhring til þess að undirbúa okkur.“

Spáð er vindhviðum allt að 31 metra á sekúndu við ströndina í Massachusettsríki. Talið er að hundruð þúsunda komist ekki til vinnu í ríkinu í dag og á morgun vegna veðursins. 

Skokkarar í Prospect Park í Brooklyn um helgina.
Skokkarar í Prospect Park í Brooklyn um helgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert